131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[17:05]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki betur en það sama hafi gengið yfir fyrirtæki í þessum bransa og ég geri ekki ráð fyrir að breyting verði á því. Það er bara spurning hvenær menn setja þessa breytingu á. Ég er búinn að segja það hér áður að það kemur að því að það þurfi að gera það. En að menn skuli ekki einu sinni geta séð fram úr því hvaða áhrif sú breyting sem nú þegar er búið að ákveða hefur á þennan bransa allan saman áður en menn hefja þessa göngu og skattheimtu. Það er alveg augljóst að fyrirtækin sem hér um ræðir og hafa verið að borga arð út úr rekstrinum til eigendanna, þ.e. sveitarfélaganna, munu auðvitað ekki geta gert það með sama hætti þegar grundvellinum hefur verið breytt. Menn hljóta að taka mið af því hvaða skattumhverfi er búið að setja þarna á og það mun auðvitað þýða það að menn þurfa að draga úr arðgreiðslunum.

Ég held að það væri fróðlegt að hv. þingmaður teldi upp eitthvað af þeim fyrirtækjum sem hann hefur áhyggjur af (Forseti hringir.) og þurfa að fara að borga skatt.