131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Sáttmáli um verndun mannréttinda og mannfrelsis.

705. mál
[18:31]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1322, 705. mál, um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu viðbótarsamnings nr. 14 við sáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis, um breytingu á eftirlitskerfi sáttmálans.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda viðbótarsamning nr. 14 við sáttmálann um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu), um breytingu á eftirlitskerfi sáttmálans, sem gerður var í Strassborg 13. maí 2004.

Nefndin fékk til fundar við sig þau Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti og Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti.

Meginmarkmiðið með viðbótarsamningnum er að auka skilvirkni Mannréttindadómstóls Evrópu svo að markmiðum sáttmálans um verndun mannréttinda í Evrópu verði náð. Þessar breytingar eiga að gera dómstólnum betur kleift að einbeita sér að mikilvægustu álitaefnunum án þess þó að raska rétti sérhvers einstaklings til að kæra meint mannréttindabrot til Mannréttindadómstólsins. Öll aðildarríki mannréttindasáttmálans þurfa að fullgilda viðbótarsamninginn svo hann öðlist gildi og er stefnt að því að fullgildingarferlinu verði lokið innan tveggja ára frá undirritunardegi sem var 13. maí 2004.

Lagt var fram frumvarp til laga um lögfestingu viðbótarsamnings, (þskj. 980, 648. mál) og var málið afgreitt sem lög frá Alþingi þann 4. maí sl.

Hæstv. forseti. Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálit þetta skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Dagný Jónsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Gunnar Birgisson, Jónína Bjartmarz og Þórunn Sveinbjarnardóttir.