131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[10:45]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Vegna umræðu sem hér hefur farið fram vil ég taka undir með hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni að það er mikilvægt að það mál verði klárað sem hann vakti máls á. Ég leyfi mér að mótmæla því að hægt sé að setja það mál í samhengi við annað mál sem lýtur að virðisaukaskatti og vörslufé. Það mál er langt frá því að vera nákvæmlega eins og rakið hefur verið í þessari umræðu því að verði það mál að lögum er alveg ljóst að það er verið að draga mjög úr öllum varnaðaráhrifum um að menn skili vörslufé sem þeir fá í hendur með því að innheimta virðisaukaskatt og aðrar tekjur sem ber að skila í ríkissjóð. Það er verið að draga mjög úr öllum varnaðaráhrifum verði þessi leið farin.

Hins vegar njóta ákveðin sjónarmið í þessu máli samúðar sem vert er að skoða mjög vandlega. Þær hugmyndir sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og fleiri eru með ganga í reynd allt of langt. Við hv. þingmenn sem höfum gert athugasemdir við þetta höfum verið tilbúnir að ræða um aðra niðurstöðu sem ná því markmiði sem að er stefnt hvað varðar þau sjónarmið sem njóta samúðar í þessum málum og vert er að taka á. Það er ekki þar með sagt að það eigi að gera það þannig úr garði að menn geti einfaldlega sent inn skýrslur og tilkynnt að þeir hafi gefið út reikninga hvað það varðar og greitt vörsluféð þegar fram líða stundir þegar og ef þeim dettur það í hug.