131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[13:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er lýsandi dæmi um tregðu stjórnarflokkanna til að setja lög um fjármál stjórnmálaflokkanna að það hefur tekið nærri eitt og hálft ár að knýja fram þessa skýrslu frá forsætisráðherra upp á aðeins fjórar blaðsíður. Fátt er nýtt í henni nema að þar eru vísbendingar sem hún gefur um verulega aukningu á fjárframlögum til flokkanna frá lögaðilum og síðan yfirlýsing forsætisráðherra um að skipa nefnd sem hefur það verkefni að leggja mat á þörf fyrir löggjafarumbætur á þessu sviði. Þetta er allt og sumt.

Virðulegi forseti. Leggja mat á þörf, segir forsætisráðherra. Öll þjóðin telur þörf á slíkri lagasetningu og ég veit ekki betur en að allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafi það á stefnuskrá sinni. Hefur Samfylkingin m.a. birt opinberlega reikninga sína frá stofnun flokksins. Krafan í þjóðfélaginu er um gegnsæi og opna stjórnsýslu. Mikilvæg lög hafa verið sett á umliðnum árum í því efni en stjórnarflokkarnir hafa beitt valdi sínu til að koma í veg fyrir að þetta gegnsæi nái til fjárreiðna stjórnmálaflokkanna.

Það eru aðeins örfáir flokkseigendur í stjórnarflokkunum með formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í broddi fylkingar sem þumbast við í þessu máli. Í skjóli valds hafa stjórnarflokkarnir reist girðingar um sín eigin fjármál og ekki fylgt með í þeirri kröfu sem verið hefur um gegnsæja og opna stjórnsýslu. Hverju hafa þeir að leyna? Ef þeir hafa engu að leyna, hvaða rök eru þá fyrir því að skapa slíka tortryggni og leyndarhjúp um fjármál flokkanna? Ísland er orðið eins og nátttröll meðal lýðræðisþjóða en Ísland er eina landið í Vestur-Evrópu fyrir utan Sviss sem ekki hefur sett lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna.

Frá árinu 2001 hefur nefnd sem fjallar um spillingu á vegum Evrópuráðsins verið með alvarlegar athugasemdir vegna skorts á reglum hér á landi um fjármögnun stjórnmálaflokka þar sem líka kom fram að fámenni hér á landi gæti skapað hagsmunaárekstra og ýtt undir spillingu. Þeir hafa líka látið koma fram að íslensk stjórnvöld líti á spillingu fremur þröngt því að hér sé eingöngu litið til mútugreiðslna og ekki horft til fjársvikamála og kaupa á áhrifum og völdum.

Í þessari skýrslu sem við ræðum hér kemur fram að nefnd sem skilaði skýrslu um fjármál stjórnmálaflokkanna í lok árs 1998 setti einum rómi fram tillögur sem fólu í sér að ekki yrðu sett lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hæstv. forsætisráðherra ítrekar það í þessari umræðu. Hæstv. forsætisráðherra getur þess hins vegar ekki að það kom fram í Ríkisútvarpinu í janúar árið 2000 að niðurstaðan í þessari nefnd var knúin í gegn með hótunum, auk þess sem einn stjórnmálaflokka tók ekki þátt í þessu nefndarstarfi. Það kom sem sagt fram opinberlega að flokkunum var hótað að opinberir styrkir til stjórnmálaflokkanna yrðu ekki afgreiddir fyrr en eftir alþingiskosningar 1999 ef menn stæðu ekki saman um að engin lög yrðu sett um fjármál flokkanna. Hæstv. forsætisráðherra skyldi líka muna að það var forsenda margra þingmanna þegar ákvæðið var sett í skattalög árið 1993, um að framlög lögaðila til stjórnmálaflokka væru frádráttarbær frá tekjuskatti, að lög yrðu sett um fjárreiður flokkanna. Það var undirstrikað af mörgum þingmönnum. Það var svikið því að nefndarmenn voru knúnir með hótunum til að standa saman að því að skila auðu í málinu. Þetta er gróf samtrygging gegn hagsmunum almennings. Áfram átti að ríkja þögn um fjármál flokkanna. Stjórnarflokkarnir hafa því við engan að sakast nema sjálfa sig þegar sögur ganga um mikla hagsmunaárekstra vegna fjármálatengsla þeirra við fyrirtækjasamsteypur eða valdablokkir í samfélaginu.

Í þessari skýrslu kemur fram að frádráttur frá skatti vegna gjafa og framlaga hefur meira en þrefaldast frá árinu 1998 til 2004. Ég spyr: Af hverju fást engin svör við því þó að ítrekað hafi verið eftir því leitað á Alþingi hve stór hluti þessarar aukningar er vegna framlaga til flokkanna? Þessar töpuðu skatttekjur sem er óbeinn stuðningur við stjórnmálaflokkana koma til viðbótar þeim 300 millj. kr. framlögum sem flokkarnir fá á ári til starfsemi sinnar en framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokkanna hafa aukist um rúm 60% á fimm árum. Á þessum sjö árum hafa gjafir og framlög sem frádráttarbær eru numið rúmlega 3 millj. kr. Ég veit og hef um það upplýsingar frá skattyfirvöldum að það er hægt að fá sundurliðun á því þar hve mikið af þessum framlögum hefur verið vegna styrkja til flokkanna ef vilji er fyrir hendi hjá stjórnvöldum. Um það var forsætisráðherra spurður í þessari skýrslubeiðni sem ég lagði fram hvort hann væri reiðubúinn að beita sér fyrir því að þessar upplýsingar yrðu gerðar opinberar. Því er ekki svarað í þessari skýrslu og ég ítreka þá spurningu til hæstv. forsætisráðherra.

Virðulegi forseti. Í mínum huga kemur fyllilega til greina að banna allan stuðning frá fyrirtækjum við stjórnmálaflokka og spyr ég forsætisráðherra um afstöðu hans til þess. Því yrði jafnframt að fylgja að flokkarnir eru skyldaðir til að opinbera bókhald sitt og birta á hverju ári reikninga sína. Ríkisendurskoðun yrði gert að yfirfara bókhald þeirra reglulega og birta opinberlega niðurstöðu sína. Jafnframt þarf að skylda flokkana til að halda aðgreindu bókhaldi vegna kosningabaráttu sem birt væri opinberlega sundurgreint eftir samræmdu reikningsskilaformi þar sem ítarlega þyrfti að greina frá fjárframlögum vegna auglýsinga. Ríkisendurskoðun hefði líka þá skyldu að yfirfara kosningabókhald flokkanna. Jafnframt er nauðsynlegt að frambjóðendur til Alþingis og sveitarstjórna birti opinberlega reikninga sína vegna prófkjöra.

Virðulegi forseti. Á siðferðisstyrk og trúverðugleika flokkanna mun reyna meira en nokkru sinni í þeirri vinnu sem nú á að fara fram um lagaumgjörð að opnu bókhaldi flokkanna. Ekki verður liðin nein moðsuða í því efni. Ég hvet til að þeirri vinnu ljúki fyrir komandi þing að hausti og að lagasetning taki gildi um næstkomandi áramót. (Forseti hringir.)