131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:54]

Frsm. meiri hluta samgn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í fyrra andsvari að ábyrgðin er mikil. Ég geri mér fulla grein fyrir því. Það er líka mikil ábyrgð sem fylgir því að setja lög. Þess vegna er þetta ákvæði um verklagsreglurnar afar mikilvægt. Verklagsreglurnar geta verið með þeim hætti að ekki þurfi að koma fram opinberlega hvaða starfsmaður fjarskiptafyrirtækis veitir umbeðnar upplýsingar. Þannig hefur m.a. veit ég eitt fjarskiptafyrirtækið leyst úr þessum vanda.

Ég vek líka athygli á því að þegar lögregla er kölluð að innbroti í verslun, einbýlishús eða íbúð hefur hún heimild til að afla fingrafara. Af hverju þarf hún að afla fingrafara? Það er af því að hún vill reyna að finna hver sökudólgurinn er. Ég vil meina að þetta sé í rauninni að leita fingrafara í samskiptunum. Mér finnst það vera algjörlega sambærilegt. Ef hins vegar á að vinna eitthvað frekar með þetta þarf lögreglan að afla sér úrskurðar dómstóla. Þetta getur verið forsenda fyrir úrskurði dómstóla um frekari rannsókn, frekari athugun á meintum brotamanni. Ég vil líka segja að við verðum jafnframt að bera eitthvert traust til lögreglunnar. Við getum ekki þjarmað svo að henni að hún standi berskjölduð uppi meðan þeir sem starfa utan við lög og reglur hafa algjörlega frjálsar hendur. Þetta er allt til komið, og rétt að ítreka það, vegna þess að menn eru í baráttu við ýmsa brotamenn sem notfæra sér nútímafjarskipti, ekki síst í sínum ólöglegu viðskiptum.