131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:54]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu hið umdeilda mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur gert grein fyrir áliti minni hluta samgöngunefndar í þessu máli. Ég er áheyrnarfulltrúi í samgöngunefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og get sagt að ég styð í öllum meginatriðum minnihlutaálit samgöngunefndar sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur mælt fyrir.

Það eru mörg lögfræðileg álitamál sem tengjast þessari afgreiðslu. Þar hef ég ekki miklu við ágæta útlistun hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að bæta varðandi lögfræðileg álitamál í afgreiðslunni. Það sem ég vildi hins vegar láta koma fram auk þessa er að þetta frumvarp er að hluta til fylgifrumvarp eða afleiðing af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að selja Landssímann. Að honum seldum verður að setja ýmis önnur lagaákvæði inn í fjarskiptalögin við þær breytingar sem þá verða, enda kemur m.a. fram í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Með því var lagður grunnur að einkavæðingu ríkisrekinna símafyrirtækja og sala Landssíma Íslands er eðlilegt framhald af þeirri þróun. — Það er túlkun meiri hlutans — „Stjórnvöld geta því ekki lengur notað fyrirtækið til að framkvæma stefnu sína í fjarskiptum. Nauðsynlegt er að stjórnvöld setji þá stefnu fram með skýrum hætti og er það m.a. gert með fjarskiptaáætlun.“

Síðan er það áréttað hér með frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjarskipti. Þetta er hinn pólitíski bakgrunnur á bak við hina mörgu þætti í þessu frumvarpi.

Þá vil ég láta koma fram hér hina ítrekuðu stefnu mína og þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Landssíma Íslands á ekki að selja. Það á að beita afli hans og styrk til að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi í landinu auk þess sem hann skapar nú þegar milljarða króna tekjur í ríkissjóð og því afar óskynsamlegt að hann sé seldur.

Margar af greinunum í frumvarpinu lúta að þessum breytingum. Verði sú óheillaaðgerð ofan á að Landssíminn verði seldur geri ég mér grein fyrir að breyta þarf ýmsum lögum hvað varðar fjarskipti í kjölfarið. Ég ætla ekki að fara frekar ofan í einstakar greinar sem lúta að þessu heldur bendi á þetta með almennum hætti. Varðandi hins vegar þær greinar sem eru mest umdeildar og lúta að persónuverndarmálum, friðhelgi einkalífsins, þá vil ég taka fram að ég spurði um það í samgöngunefnd hvort þau atriði ættu ekki miklu frekar heima í lögum um meðferð opinberra mála og þá í annarri nefnd, þau lúta að réttarfarsreglum, að persónuvernd en ekki beint að tæknilegum atriðum eins og annars er um fjarskipti. Þær ákvarðanir og þær kvaðir sem setja þyrfti vegna þessara atriða á fjarskiptafyrirtækin ættu að vera í lögum um meðferð opinberra mála. Ég tel að þetta hafi verið grundvallarskekkja í uppsetningu á þessu máli og þar liggi vandamálið að verið er að setja inn í fjarskiptalög atriði sem eiga að vera í lögum um meðferð opinberra mála. Það er eðlilegt, eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kom inn á og gat um, að þessi mál sem lúta að persónuvernd og friðhelgi einkalífsins séu í einum málaflokki þannig að hægt sé að hafa þar rækilega heildaryfirsýn en séu ekki sett inn í hin ýmsu lög og skapa þannig réttaróvissu, óvissu um stöðu einstaklingsins sem því mundi fylgja. Þetta gagnrýni ég. Sömuleiðis þær greinar sem lúta að þeirri skerðingu á persónufrelsi sem talið er upp í 7., 8. og 9. gr. og lúta að heimild til að skrá símtöl og fjarskipti. Ég tek undir þá gagnrýni að hér sé allt of langt gengið og vísa til umsagnar Persónuverndar sem hefur vakið mjög rækilega máls á því og gert alvarlegar athugasemdir við að þarna sé gengið allt of langt inn á friðhelgi einkalífsins og persónuvernd. Ekki er hægt að tryggja eftirlit og öryggi allra borgaranna með stöðugum, hertum og tæknivæddum eftirlitsaðgerðum. Það verður aldrei hægt.

Ég hef áður sagt, og segi enn af því að hæstv. dómsmálaráðherra er hér, að þetta var reynt í Austur-Þýskalandi hjá Stasi. Það átti að tryggja öryggi borgaranna með því að hópur manna fylgdist með næsta borgara og það gekk ekki vel. (Dómsmrh.: Þetta er rangt. Þetta er bara einhver vinstri græn pólitík, sem er rugl.) Ég fer að halda að hæstv. dómsmálaráðherra hafi á sínum tíma fengið sinn lærdóm í Austur-Þýskalandi. Þegar mönnum verður hugsað til lögregluríkis þá er það gjarnan nefnt og samanburður við það. Mér ofbýður, frú forseti, ákefð hæstv. dómsmálaráðherra í að setja öll möguleg lög um að fylgjast með borgurunum og skrá skref þeirra. Mér ofbýður það og verð að segja að þar greinir okkur á.

Mín skoðun og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er að fara eigi mjög varlega í að beita slíkum eftirlitsaðferðum með hinum almenna borgara. En jafnframt þurfa að vera fyrir hendi tiltæk ráð ef grunur leikur á um brot en þá höfum við dómskerfið. Það er hægt að fá dómsúrskurð um að rannsaka grunsamleg tilfelli og auðvitað verða þau úrræði að vera fyrir hendi. En mönnum ber að vera á varðbergi gagnvart því að auka stöðugt eftirlitið með nágrannanum þannig að menn hafi á tilfinningunni að hver og einn sé fæddur glæpamaður eða efni í glæpamann. (KHG: Gæti verið það.) Hann gæti verið það, já. Ég geri mér grein fyrir því, frú forseti. En ef við förum út í lífið með þessa afstöðu þá er það mikil þrautaganga. Ég hef þá almennu skoðun varðandi þetta mál.

Ég tek undir það sem fram kemur í nefndaráliti hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, að þetta mál kom bæði seint inn í samgöngunefnd og fékk þar mjög takmarkaða úrvinnslu og vinnu. Það kom fram í öllum umsögnum sem bárust og hjá öllum gestum nefndarinnar að um þetta ríkti mikill ágreiningur. Það er fjarri því að þeir sem hefðu átt að koma að máli og hefðu átt að koma skoðunum sínum á framfæri hafi fengið að gera það með eðlilegum hætti.

Hv. þingmaður minntist á dómstólaráð og réttarfarsnefnd sem eðlilegt hefði verið, úr því að þetta mál var komið inn til nefndar, hefði gefið umsögn. En málefni sem lúta að persónuvernd og friðhelgi einkalífsins eiga að vera í einum lagabálki að mínu viti, þ.e. í lögum um meðferð opinberra mála en ekki í tæknifrumvörpum á borð við það sem við fjöllum hér um. Við það fer þessi málaflokkur, sem er viðkvæmur í hverju samfélagi, á dreif og það er erfiðara fyrir einstaklinginn og hið opinbera að átta sig á hvar mörkin eru hverju sinni og hvernig stendur með vernd einstaklingsins þegar á heildina er litið. Þess vegna á þetta að vera í einum málaflokki.