132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sérfræðingar leggja mat á fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gagnrýndi harðlega fyrirætlanir hennar þegar í sumar og í vikunni hefur KB-banki sagt að í frumvarpinu séu misvísandi yfirlýsingar um eyðslu og sparnað. Landsbankinn segir okkur að aðhald sé fráleitt nóg og að gefist hafi verið upp við verðbólgumarkmiðið. Íslandsbanki segir okkur að afgangurinn hefði þurft að vera tvöfalt meiri og að þjóðhagsspáin sé ótrúverðug vegna þess að það sé pólitík í henni. Samtök atvinnulífsins segja að viðvarandi verðbólga kippi stoðunum undan kjarasamningum. Alþýðusambandið telur að ekki sé sparað nægilega til að skapa forsendur fyrir skattalækkunum og lýsir sárum vonbrigðum með fjárlagafrumvarpið. Seðlabankinn átti í síðustu viku von á tvöfalt meiri afgangi ríkissjóðs.

Áður en fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2006 kemur til 1. umr. hefur það fengið falleinkunn hjá öllum sérfræðistofnunum sem um málið hafa fjallað. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, nú þegar fjármálalífið, atvinnulífið og efnahagsstofnanirnar hafa fellt þennan dóm, hvort ekki sé nauðsynlegt að taka frumvarpið til gagngerrar endurskoðunar og hvort hann útiloki að endurskoða að hluta eða í heild skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar. Neyðist hann ekki til að játa, þegar allir þessir sérfræðingar hafa komið fram, að aðhaldsstig fjárlaganna sé fráleitt nóg? Eða getur hæstv. fjármálaráðherra bent okkur á eina stofnun í íslensku samfélagi, aðra en ríkisstjórnina, sem telur að þetta frumvarp takist á við þau verkefni í hagstjórninni sem blasa við okkur og ógna þeim stöðugleika sem svo hart var unnið að að koma á eftir það verðbólgubál sem brann undir lok síðustu aldar?