132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:14]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra hjá hv. þingmanni Helga Hjörvar hve mikla áherslu hann leggur á að viðhalda þeim stöðugleika sem tekist hefur að ná. Með því viðurkennir hann þann árangur sem ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum náð í hagstjórninni sem hefur að verulegu leyti skilað sér til íbúa landsins.

Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að fjárlagafrumvörp geta verið umdeild og forsendur þeirra geta verið umdeildar líka. Þegar við skoðum það sem gagnrýnendur segja held ég að við þurfum fyrst að athuga hvort þeir eru að gagnrýna þjóðhagsspána. Velta þeir upp einhverjum flötum á því að niðurstaða hennar ætti að vera öðruvísi? Eða eru þeir að gagnrýna þær fyrirætlanir sem ríkisstjórnin byggir á þeirri spá sem fyrir liggur frá fjármálaráðuneytinu?

Ég heyri þá gagnrýna spána og ég heyri þá síðan gagnrýna aðgerðirnar að hluta til. En ég heyri þá ekki gagnrýna aðgerðirnar í tengslum við spána sjálfa. Þeir eru ekki að segja að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu í ósamræmi við spána en þeir eru að gagnrýna spána.

Spá, eins og ég segi, er eðli málsins samkvæmt spá. Spár geta verið umdeildar og menn geta byggt þær upp á mismunandi forsendum og þær geta breyst vegna ófyrirsjáanlegra atburða eins og við höfum oft séð. En þá skiptir mestu máli að það kerfi sem við höfum byggt upp geti brugðist við breyttum aðstæðum. Ef hagvöxturinn verður meiri, tekjur ríkissjóðs meiri, þá verður tekjuafgangurinn líka meiri og þá verður aðhaldið meira. Þannig er kerfið hjá okkur upp byggt.