132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:53]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra spyr um spár. Forstöðumaður efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins sagði á fundi fjárlaganefndar að það væri nú með hagfræðina eins og sjávarlíffræði og veðurfræði að þær væru óvissu háðar. Það kemur auðvitað í ljós þegar þær forsendur sem lagt var upp með í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið í ár eru skoðaðar eftir á.

Víst telja greiningardeildir bankanna að aðhald í ríkisútgjöldum sé ekki nóg. Þær segja það a.m.k tvær alveg skýrt að til þess að skapa svigrúm fyrir þeim skattalækkunum sem ráðgerðar eru sé aðhaldið ekki nóg. Þá er eðlilegt að spurt sé og það vakti athygli að hæstv. fjármálaráðherra skyldi víkja sér undan að svara því hér áðan hvort ríkisstjórnin útiloki að taka til endurskoðunar þær fyrirætlanir sínar að hluta eða í heild um skattalækkanir eins og t.d. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatti hana til í sumar.

Hæstv. fjármálaráðherra getur auðvitað ekki gengið hér í ræðustólinn og krafið mig um niðurskurð á tekjum og aukningu útgjalda tveimur sólarhringum eftir að hann lét mig hafa fjárlagafrumvarpið. Ég hef sagt hæstv. fjármálaráðherra að við teljum að aðhaldið þurfi að vera talsvert meira en 1,4%, óraunsætt sé að ná því í 3%. Hann mun fá að sjá tillögur okkar í þessum efnum þegar líður fram á þingið. Ég tel að tillögur okkar við síðustu fjárlagaumræðu, um lækkun á matarskatti og ýmiss konar ráðstafanir á útgjaldahliðinni, hafi verið ábyrgari og skynsamlegri til að ná efnahagsmarkmiðunum í þensluástandi heldur en þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók og ég finn auðvitað að hluta til til með hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins vegna þess að það voru jú (Forseti hringir.) framsóknarmenn sem vörnuðu því framgangs hér í þinginu.