132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:55]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2006 sem er fyrsta fjárlagafrumvarp nýs hæstv. fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesens. Um leið og ég býð hann velkominn til starfa sem fjármálaráðherra og óska honum velfarnaðar í mikilvægu starfi óska ég honum til hamingju með þetta fyrsta frumvarp hans þó svo að við öll vitum að hann kom að því máli undir lokin en fylgir því mjög vel eftir hér á Alþingi. Ég er þess fullviss að við í fjárlaganefndinni munum eiga mjög gott samstarf við nýjan hæstv. fjármálaráðherra enda er hann gamall meðlimur fjárlaganefndar og þekkir vel til starfa þar og veit hvað þar fer fram og ég hlakka til samstarfs við hann.

Ég vil einnig, hæstv. forseti, nota þetta tækifæri og þakka fráfarandi hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, fyrir störf hans í fjármálaráðuneytinu og þakka honum fyrir einstaklega gott og ánægjulegt samstarf við fjárlaganefnd.

Umfjöllun um frumvarp til fjárlaga setur jafnan mikinn svip á störf Alþingis á hverju haustþingi enda felur fjárlagafrumvarpið í sér pólitíska stefnumótun ríkisstjórnar á hverjum tíma og samþykkt fjárlaga er auðvitað grundvallarlagasetning um rekstur og starfsemi ríkisins á hverjum tíma, á hverju ári, og hafa fjárlögin því mikil áhrif á þjóðlífið og snerta hagsmuni hvers einasta Íslendings á einhvern hátt.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir að lokaumræða og afgreiðsla fjárlagafrumvarpsins fari fram viku af desember og það er mikilvægt að Alþingi takist að ljúka afgreiðslu fjárlaga sem fyrst fyrir upphaf þess fjárlagaárs sem það tekur yfir. Það skiptir máli fyrir alla aðila að vita tímanlega um niðurstöður fjárlaga svo þær forsendur sem það felur í sér séu ljósar með góðum fyrirvara þannig að allir aðilar hafi sem best svigrúm í tíma til að gera áætlanir sínar. Til þess að þetta takist allt saman er ljóst að fjárlaganefnd og allir þeir aðilar sem nefndin mun eiga samskipti við vinni markvisst og vel á þeim tíma sem fram undan er.

Virðulegi forseti. Ljóst er að staða ríkissjóðs er mjög sterk um þessar mundir og hefur sjaldan eða aldrei verið betri. Ríkissjóður hefur skilað umtalsverðum tekjuafgangi undanfarin ár og mun gera það á næsta ári. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að tekjuafgangurinn verði um 14 milljarðar kr., sem er um 1,4% af landsframleiðslu. Þetta hefur m.a. gert okkur kleift að greiða niður skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs í miklum mæli og nú hillir undir að skuldastaða ríkissjóðs verði með því lægsta sem þekkist og því fylgir að vaxtagreiðslur hafa minnkað mjög verulega.

Ég held að rétt sé að rifja upp að fyrir um tíu árum voru vaxtagreiðslur álíka stór útgjaldaliður fjárlaga og allt það fjármagn sem varið var á þeim tíma til menntamála, með öðrum orðum u.þ.b. þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaganna. Ef horft er til frumvarpsins fyrir 2006 er gert ráð fyrir að vaxtagjöldin verði rúmir 13 milljarðar eða sjöundi hæsti útgjaldaliðurinn. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að nefna að ef skuldastaðan væri nú sú sama og var árið 1998 þyrfti að gera ráð fyrir meiri útgjöldum vegna vaxtagjalda sem nemur um 16 milljörðum kr. og það munar um minna.

Hins vegar er rétt að vekja athygli á því einnig að vaxtatekjur og eignatekjur eru áætlaðar um 14,2 milljarðar í frumvarpinu, sem er um 800 milljónum hærri fjárhæð en vaxtagjöldin. Hér er óneitanlega um athyglisverðar tölur að ræða sem sýnir betur en margt annað hve staða ríkissjóðs er góð um þessar mundir. Þetta er mikil og ánægjuleg breyting sem hefur m.a. skapað aukið svigrúm til útgjalda í öðrum málaflokkum, svo sem til velferðarmála, og með lækkun skulda og vaxtagjalda er verið að búa í hag fyrir komandi kynslóðir. Það er göfugt verkefni og ánægjulegur árangur.

Við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagsmálum hefur mikið verið rætt um að beita verði ýtrasta aðhaldi í ríkisrekstri til hagstjórnar. Þetta er rétt. Mikilvægt er að sýna aðhald í ríkisútgjöldum, ekki síst við þessar aðstæður. Ég tel að fjárlagafrumvarpið feli í sér verulegt aðhald þótt ýmsir, þar á meðal ýmsir forustumenn stjórnarandstöðunnar, hafi rætt um að svo sé alls ekki.

Ég hef hins vegar ítrekað bent á, og geri það enn á ný, að alltaf megi gera betur varðandi almennt aðhald og aga í rekstri ríkisins. Ég ítreka að alltaf má gera betur í þeim efnum og við höfum margoft farið yfir það

Sumir halda því fram að stjórnvöld séu stikkfrí í hagstjórninni og taki ekki hlutverk sitt alvarlega. Einn orðhvatur forustumaður stjórnarandstöðunnar hefur haldið því fram að í frumvarpi felist afneitun ríkisstjórnarinnar á stöðu efnahagsmála. Það blasir hins vegar við að ýmsir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast afneita öllu því jákvæða og góða sem við búum við um þessar mundir og er vonandi að heilsufar þeirra lagist sem allra fyrst og þeir sjái ljósið.

Staðreyndin er sú að í fjárlagafrumvarpinu felst mikið aðhald. Sem dæmi má nefna að miðað við áætlaða útkomu ársins 2005 eru útgjöld í heild sinni aðeins 1,8% hærri að raungildi, miðað við almennt verðlag, í frumvarpinu 2006. Sé miðað við áætlaða útkomu ársins 2005, án áhrifa á sölu Landssímans, lækka útgjöldin að raungildi um tæplega 1%. Einnig má benda á að í frumvarpinu kemur fram að dregið verði úr fjárfestingum á næsta ári. Gert er ráð fyrir að framkvæmdakostnaður verði alls um 13,2 milljarðar kr., sem er mun lægri fjárhæð en árið 2005. Stærstu framkvæmdaliðirnir eru vegamál, tæpir 6 milljarðar kr., heilbrigðisstofnanir 1,6 milljarðar kr., framhalds- og háskólar 1,5 milljarðar kr. Ég tel að þessar stærðir séu ekki til skiptanna til frekara aðhalds, en fróðlegt væri að heyra hvort stjórnarandstaðan hefur tillögur í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir að það muni þá koma fram við þessa umræðu.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrarútgjöld aukist mest til menntamála, til barnabóta, málefna fatlaðra, til löggæslu- og öryggismála og til reksturs sjúkrastofnana og heilsugæslu. Auk þessa eru sérstök framlög til rannsóknar og nýsköpunar og ég er sannfærður um að almennt er góð samstaða um þær áherslur í þessum málaflokkum. Ég tel ekki líklegt að stjórnarandstaðan muni koma fram með sérstakar tillögur um aukið aðhald á þeim sviðum.

Ef rýnt er í frumvarpið og skoðaðar breytingar á tegundagreindum útgjöldum kemur í ljós veruleg hækkun launa. Í áætlun fyrir árið 2005 eru launagjöldin áætluð rúmir 85 milljarðar kr. en hækka í tæpa 92 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu fyrir árið 2006, eða um rúma 6 milljarða kr., sem nemur um 7% milli áranna 2005 og 2006. Þótt allir vilji eflaust hærri laun þá sýnir þetta mikilvægi þess að aðhald sé í launaútgjöldum og kjarasamningum. Það er eitt af lykilatriðum þess að takast megi að halda vexti samneyslunnar þannig að hún aukist ekki umfram 2% á ári yfir langt tímabil, eins og markmiðið er og fram kemur í stefnumótun ríkisstjórnarinnar.

Í ljósi þess að sumir hafa rætt um að ekki sé gætt nægilegs aðhalds í ríkisfjármálum má vísa til upplýsinga frá OECD. Þar kemur fram að aðhaldsstig ríkisfjármála hafi aukist meira á Íslandi en í nokkru öðru ríkja OECD. Ég þori að fullyrða að sú staða hefur ekki breyst.

Einnig verður að halda til haga að ábyrgð í ríkisfjármálum birtist m.a. í því að frá árinu 2003 hafa, samhliða frumvörpum til fjárlaga, verið lagðar fram langtímaáætlanir til næstu ára þar sem fram kemur langtímastefna í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt. Reynslan er sú að markmið þeirra áætlana hafa náðst, enda er það grundvallaratriði ef þessar áætlanir eiga að vera trúverðugar. Ef stjórnarandstöðunni þykir aðhaldið í frumvarpinu ekki nægilega þá hlýtur að vera eðlileg krafa að stjórnarandstaðan leggi fram raunhæfar tillögur um frekara aðhald. Að öðrum kosti er sú umræða ekki trúverðug. Ég heyrði áðan einn hv. þingmann Samfylkingarinnar lýsa því yfir að við mættum eiga von á slíkum tillögum. Ég hlakka til að sjá þær og taka þátt í umfjöllun um þær.

Ég vil nefna það, virðulegur forseti, sem dæmi um það sem ég tel ótrúverðuga umræðu, að í umræðu um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra á mánudag kom fram í máli hv. þingmanns, varaformanns Samfylkingarinnar, að Samfylkingin vildi stórefla framlög til menntamála og ýmissa annarra málaflokka. Slíkar yfirlýsingar hljóta að teljast ótrúverðugar á sama tíma og talsmenn Samfylkingar, og annarra flokka reyndar líka, halda því fram að aðhald skorti í fjárlagafrumvarpið. Það er mikilvægt að í umræðunni tali menn skýrt og fullt mark megi taka á málflutningi þeirra. En eins og ég sagði áðan geri ég ráð fyrir að við munum sjá tillögur frá stjórnarandstöðunni um aukið aðhald í ríkisfjármálum.

Virðulegur forseti. Í gær mælti hæstv. forsætisráðherra fyrir frumvarpi til laga um ráðstöfun söluandvirðis Landssíma Íslands hf. Það mál er mjög merkilegt fyrir margra hluta sakir. Það liggur fyrir að salan var vel heppnuð og vel að henni staðið. Söluverð eignanna var mjög hátt og reyndar mun hærra en flestir höfðu gert ráð fyrir fyrir fram. Í frumvarpinu liggja fyrir skynsamlegar tillögur um ráðstöfun söluandvirðis. Mestur hluti þeirra fjármuna verður nýttur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem ég fagna sérstaklega. Sá hluti söluandvirðisins sem var greiddur í erlendum gjaldmiðlum fer til greiðslu erlendra skulda og það fjármagn kemur ekki inn í hagkerfi okkar sem erlendur gjaldeyrir. Miklir fjármunir eru lagðir inn til ávöxtunar hjá Seðlabankanum og munu ekki settir í umferð fyrr en mesta þensluskeiðið er yfirstaðið.

Stór og fjárfrek verkefni verða fjármögnuð með þessu fé, verkefni sem seint eða varla verður svigrúm til að fjármagna með venjulegum hætti í fjárlögum næstu ára. Fyrir utan skynsamlega ráðstöfun þessara fjármuna út frá stöðu efnahagslífsins um þessar mundir skapast aukið svigrúm í fjárlögum næstu ára fyrir ýmis verkefni, þar á meðal í velferðarmálum, m.a. vegna lægri vaxtagjalda og minni greiðslubyrðar ríkissjóðs vegna lægri skulda. Öll þessi ráðstöfun er í þágu framtíðarinnar og komandi kynslóða. Því ber að fagna.

Ljóst er að almennt gengur okkur Íslendingum vel um þessar mundir. Að vísu glímum við við krefjandi verkefni vegna óvenjuflókins samspils ólíkra þátta í efnahagskerfinu en það er tímabundið ástand sem ég er sannfærður um að okkur tekst að leysa. Stóra áhyggjuefnið í þessu sambandi er gengisstig krónunnar sem veldur útflutnings- og samkeppnisgreinum erfiðleikum um þessar mundir. Okkur sem þjóð verður að takast að leysa úr þeirri stöðu þannig að t.d. sjávarútvegur og ferðaþjónusta nái að blómstra enn meira, eins og forsendur eiga að vera fyrir. En þetta úrlausnarefni snertir ekki aðeins Seðlabankann og ríkissjóð. Þar eiga ekki síður hlut að máli fjármálastofnanir og einstaklingar almennt. Ýmsir aðilar beina orðum að Seðlabankanum og ríkissjóði, sem út af fyrir sig er eðlilegt. En það væri ekki úr vegi fyrir fjármálastofnanir sem hafa áhyggjur af stöðu mála að líta aðeins í eigin barm og leggja sitt af mörkum í þessum efnum.

Þá er ekki síður ástæða til að beina því til almennings í landinu að leggja sitt af mörkum með því að draga verulega úr einkaneyslu og snúa sér í meiri mæli að sparnaði. Það er staðreynd að við Íslendingar erum eftirbátar annarra þjóða hvað varðar almennan sparnað.

Í umræðu um efnahagsmál og lífskjör heyrist oft að mörgum finnist á sig hallað en aðrir maki krókinn. Það er söguleg staðreynd, sem á við í dag og mun eflaust eiga við í framtíðinni, að aðstæður fólks eru misjafnar á margan hátt. Okkar hlutverk er að leggja okkur fram um að koma til móts við þá sem af einhverjum ástæðum standa höllum fæti og eiga minni möguleika á að standa undir framfærslu sinni en aðrir. Það höfum við að sönnu gert. Það kemur einnig fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006. En eflaust má alltaf gera betur og meira í þessum efnum.

Í samanburði við aðrar þjóðir kemur Ísland mjög vel út um þessar mundir. Nægir að nefna nýlegar upplýsingar frá Sameinuðu þjóðunum þar sem fram kemur að Ísland er í öðru sæti yfir þjóðir heimsins sé litið er til lífskjara og búsetuskilyrða. Þótt einhverjir kunni að vilja gera lítið úr þessu, þar sem um einhvers konar meðaltalsmælingu er að ræða, þá segir þetta ákveðna sögu. Við eigum að vera stolt og ánægð yfir því. Þegar maður hittir kollega sína frá öðrum þjóðum, jafnvel frá nágrannaþjóðum okkar, þá vekur árangurinn mikla athygli og umræðurnar snúast um hvernig í ósköpunum við Íslendingar förum að því að standa okkur svo vel. Okkur hefur einfaldlega tekist að halda uppi góðum hagvexti undanfarin ár. Atvinnuleysi er sem betur fer mjög lítið og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið um 60% síðustu 10 ár. Það er útlit fyrir það, samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs og þjóðhagsáætlun, að okkur takist að halda áfram á þeirri braut næstu árin.

Það er ekki síður krefjandi að halda vel um þegar vel gengur í ríkisfjármálum en þegar þrengir að. Í hagkerfinu er mikið um að vera. Nú ríkir þensluskeið sem stafar ekki nema að litlu leyti af stóriðjuframkvæmdum heldur hefur þensla á húsnæðismarkaði haft afgerandi áhrif síðustu mánuði, auk olíuverðshækkana á heimsmarkaði. Ég treysti að sjálfsögðu stjórnvöldum til að halda þannig á málum að okkur farnist vel í efnahagsmálum hér eftir sem hingað til. Ég kalla einnig eftir því að fjármálastofnanir og almenningur í landinu leggi sitt af mörkum til að svo geti orðið.

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um fjárlagafrumvarp ársins 2006 er umræðan eðlilega meira á almennum efnahagslegum nótum en í smáatriðum um einstaka liði frumvarpsins, enda hefur fjárlaganefnd ekki hafið eiginlega umfjöllun um frumvarpið. Ég mun láta nánari umfjöllun um einstaka þætti bíða síðari umræðu eftir að fjárlaganefnd hefur fjallað efnislega um málið.

Ég vil í lokin segja að ég vænti góðs samstarfs í fjárlaganefnd, líkt og verið hefur hingað til, við þá fjölmörgu aðila sem munu koma að vinnu nefndarinnar á næstu vikum. Fram undan er annatími í störfum fjárlaganefndar og mikilvægt að okkur takist að vinna vel og markvisst þannig að starfsáætlanir gangi eftir.