132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:20]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki orð um að ríkisstjórnin leyfði þetta vegna þess að þetta væri svo lítið. Ekkert slíkt kom fram í orðum mínum. Hins vegar er einfaldlega ekki búið að taka ákvarðanir um stækkun. Við vitum það bara ekki og getum við ekki tekið það inn í áætlun. Við vitum ekki betur en að stóriðjuframkvæmdum hér á landi ljúki þegar framkvæmdum við Kárahnjúka og álver í Reyðarfirði er lokið. Síðan eru fyrirætlanir hjá Alcan í Straumsvík. Það er alveg rétt. Það eru líka fyrirætlanir hjá bæði Alcan og Alcoa um að byggja álver fyrir norðan. Það eru líka fyrirætlanir um það hjá Norðuráli að byggja álver í Helguvík. Ég held að við ættum að fagna því að í þessar framkvæmdir verði farið. Hvenær það gerður gert getur enginn sagt um á þessu stigi. Ég held að það sé afskaplega ólíklegt að það gerist allt á sama tíma. Við þurfum því ekki að hafa stórkostlegar áhyggjur af því að það rekist neitt sérstaklega á.

Tímasetningar í þessu liggja ekki fyrir en það sem menn vita gefur enga ástæðu til að hafa áhyggjur. Ég held að það muni skipta miklu máli fyrir okkur í framtíðinni til að við getum tryggt áframhaldandi hagvöxt. Við vitum að 2,5% hagvöxtur, sem við sjáum fram á í áætluninni á árunum 2007–2009, er ekki nægilega mikill fyrir jafnunga þjóð sem vex jafnhratt og okkar. Við eigum að fagna því að einhverjir vilji koma hingað til að fjárfesta í stóriðju á næstu árum.