132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Umræða um sameiningu sveitarfélaga.

[15:07]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Í gær og í dag hafa forseta borist óskir frá fjórum hv. alþingismönnum um að fram fari umræður utan dagskrár um niðurstöður í kosningum sem fram fóru sl. laugardag um tillögur um sameiningu sveitarfélaga. Enn fremur er forseta kunnugt um að a.m.k. tveir hv. þingmenn höfðu ætlað að fá hið sama mál tekið upp hér í dag með vísan til annarra ákvæða þingskapa.

Ég hafði því frumkvæði að því í morgun að hæstv. félagsmálaráðherra hæfi umræðu um málið þannig að bæði hann og þingmenn gætu brugðist við þeim tíðindum sem urðu í þessum kosningum þegar í dag, jafnvel þótt með stuttum og knöppum hætti væri, en jafnframt yrði séð til þess að ráðherrann gæti síðar, t.d. þegar úrslit liggja fyrir í þeim kosningum sem fram fara í kjölfar þeirra sem voru sl. laugardag, tekið málið upp aftur þar sem kostur væri á því að ræða málið enn frekar og með rýmri tíma.

Það er að vísu venja sem forseti hefur haldið að þingmönnum að ekki fari fram umræða um störf þingsins á undan fyrsta dagskrárliðnum, sem er fyrirspurnir til ráðherra, en þar sem svo sérstaklega stendur á sem í dag telur forseti að rétt sé að gera undantekningu sem þó ber ekki að skilja sem fordæmi á nokkurn hátt.