132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Sameiningarkosningar sveitarfélaga.

[15:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það gátu allir vitað það sem vildu að fyrst þurfti að taka til í núverandi samskiptum ríkis og sveitarfélaga og fyrst þurfti að sjá sveitarfélögunum fyrir fullnægjandi tekjustofnum til að standa sómasamlega að núverandi verkefnum áður en þýddi að fara að tala um flutning frekari verkefna til þeirra eða eftir atvikum sameiningu á ákaflega óljósum forsendum.

Það sem var einfaldlega að gerast í þessum efnum var að menn eru orðnir leiðir á því að kaupa köttinn í sekknum. Menn ætla ekki í þessari umferð að láta svelta sig til hlýðni. Hæstv. ríkisstjórn byrjar eins og stundum áður á öfugum enda. Fyrst þurfti að koma núverandi rekstri sveitarfélaganna í landinu í viðunandi horf og vel að merkja, hæstv. fjármálaráðherra, það er engin sérstök ánægja í byggðum landsins með afkomu hinna dæmigerðu meðalstóru sveitarfélaga. Ég veit ekki á hvaða plánetu hæstv. núverandi fjármálaráðherra lifir en það er alla vega ekki á Jörðinni ef hann heldur virkilega að það sé þannig.

Síðan þyrfti að móta framtíðarstefnu um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þá geta menn tekið skipulagsþáttinn til skoðunar og skoðað hver hjá sér hvernig þeir telja skynsamlegast að standa að málum hvað varðar mörk sveitarfélaga og annað í þeim dúr. Niðurstaða tekjustofnanefndar varð auðvitað algjör hörmung. Þegar hún seint og um síðir fæddist með töngum var í henni fólgin nánast engin varanleg úrlausn í framtíðartekjustofnum sveitarfélaganna. Þetta voru fyrst og fremst gulrætur sem voru þá tengdar við sameininguna en engin varanleg úrlausn. Þar með féll málið. Og það hlýtur, frú forseti, að vera ríkisstjórninni og silkihúfunefndum hennar, undir forustu stjórnarþingmanna og öðrum sem að þessu hafa unnið með ærnum kostnaði, nokkurt umhugsunarefni hvernig þetta er komið. Þar á meðal líka forsvarsmönnum Samtaka sveitarfélaga og sérstaklega stjórnarliðum á þeim bæ. Þar hljóta menn að fara að velta því fyrir sér hvort þeir hafi kannski lotið að fulllitlu í samskiptum við flokkssystkini sín á stjórnarheimilinu.