132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:24]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er sjálfum sér samkvæmur. Ég virði skoðun hans og get tekið undir það með honum með að miklar breytingar hafa orðið á ýmsum málum.

Jöfnun símkostnaðar var mikið baráttumál og tók mörg ár. Það var ekki fyrr en Alþingi tók á því máli að af því varð. Ég man vel þá tíð að dýrara var að hringja út á land eða utan af landi til Reykjavíkur en innan bæjar. Þar munaði gríðarlega miklu. Ég man líka þá tíð að pósturinn kom þrisvar sinnum í viku með mjólkurbílnum. Vill hv. þingmaður fara aftur til þess tíma? Nú er pósti dreift alla daga vikunnar nema laugardaga og sunnudaga og kemur með góðum skilum.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann, varðandi arðgreiðslur frá Símanum, sem hann talaði mjög mikið um. Getur hann upplýst um hve miklar þær hafa verið frá árinu 1996? Ég tel að þær hafi ekki verið miklar þar til nú síðustu tvö ár. En það væri gott ef hv. þm. Ögmundur Jónasson gæti frætt okkur um það.