132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:36]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru á margan hátt sérstakar aðstæður nú við umræðuna um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 þar sem hæstv. fjármálaráðherra er nýsestur í þann stól og því varla hægt að segja að hann beri mikla ábyrgð á því sem er í þessu frumvarpi. Hæstv. ráðherra hlýtur þó að bera ákveðna ábyrgð og er að sjálfsögðu hér til svara um frumvarpið.

Ég hef lagt það í vana minn nokkur undanfarin ár að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji að þau frumvörp til fjáraukalaga sem við höfum rætt á undanförnum árum séu skref í þá átt að farið sé að lögum um fjárreiður ríkisins. Ég vil, frú forseti, leyfa mér að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvaða einkunn hann gefi fyrirrennara sínum í því frumvarpi sem við ræðum nú varðandi það hvort við höfum nálgast það að fara eftir lögum um fjárreiður ríkisins.