132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:23]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf að vanda miklum mun meir vinnubrögðin varðandi þessar heimildargreinar. Ég man eftir því í umræðum um fjárlagafrumvarpið að fram kom hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að hann teldi algjörlega nauðsynlegt að lagafrumvarp kæmi fram varðandi tónlistarhúsið og ég held að það sé rétt, ég held að við þurfum að fara yfir þetta.

Sama er um ákvæðið um kaup á hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Við þurfum, a.m.k. í fjárlaganefnd, að fá mjög nákvæma skýrslu um hvernig það mál stendur og hvaða upphæðir menn eru að tala um því að þetta sem hér kemur fram er bara hreinlega ekki nóg. Þetta sýnir mér liggur við að segja virðingarleysi gagnvart þinginu að fullyrða að sú heimild skýri sig að mestu sjálf. Ég man ekki eftir að við höfum fengið neinar skýringar á því hvað þarna er á ferðinni og við þurfum auðvitað að fara yfir það mál allt saman.

Frú forseti. Þannig hafa mál þróast hér í þessari ágætu umræðu og m.a. í ágætri ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals, að megnið af því sem ég hafði ætlað að fjalla um í seinni ræðu minni er komið fram. Ég fell því frá orðinu.