132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Námsefni framleitt af aðilum utan skólakerfisins.

123. mál
[14:27]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek fram að ég tel hið besta mál að aðilar utan skólakerfisins framleiði námsefni fyrir grunnskólabörn í skyldunámi. Það er oft ágætismál. Ég treysti skólastjórnendum ágætlega til að vinsa þar úr og velja fyrir nemendur sína. En það sem orkar tvímælis í þessu máli, ef ekki beinlínis ósmekklegt, er hugmynd Landsvirkjunar og framganga vegna eðlis verkefnisins. Um er að ræða Kárahnjúkavirkjun, eitthvert umdeildasta pólitíska mál og örugglega mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar. Mér finnst ástæða til að benda á að það er ósmekklegt af fyrirtækinu að ganga fram með þessum hætti og ætlast til að grunnskólarnir noti námsefni um jafnheitt, viðkvæmt og alvarlegt mál og það inn í skóla sína. Það er erfitt að umgangast málið þannig að ekki komi upp tortryggni, ótti við að rekinn sé áróður o.s.frv. Í þessu máli, af því að hv. þingmaður vakti máls á því, finnst mér það ósmekklegt af Landsvirkjun. En á hinn bóginn tel ég ágætt að aðilar utan kerfisins framleiði námsefni.