132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[18:01]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bæði rétt og skylt að gera þingheimi grein fyrir því hvernig hlutir ganga á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Ég skil að menn hafi áhuga á því. Ég get alveg upplýst að ég tók þátt í nefndarstörfum um málefni aldraðra. Ég get upplýst að ég var sammála í öllu þeirri samþykkt sem þar var gerð nema að einu leyti. Ég var ósammála einu atriði í henni. En það var einmitt um skattlagningu. Ég taldi hana ekki standast og ekki nokkur leið að koma henni í framkvæmd. Að öðru leyti var ég sammála samþykktinni.

Ég tók fram og menn verða að hafa það í huga að bótakerfið verður að miðast við framleiðnina í þjóðfélaginu. Eina leiðin til að bæta kjör verkamanna er að bæta kjör atvinnurekstrarins. Öðruvísi bætum við ekki kjör Íslendinga. Við skulum líta á þetta allt saman í heild sinni. Aðferðin til þess er að tryggja jafnræði, tryggja viðskipti og tryggja framleiðslustöðu Íslands og samkeppnisstöðu. Það eru aðeins ríkar þjóðir sem hafa efni á því að hafa víðfeðm og stór tryggingakerfi. Fátækar þjóðir geta það ekki, þar eru menn úti á gaddinum. Einmitt vegna þess að við erum rík þjóð og efnahagslífið gengur vel á Íslandi höfum við efni á því að reka víðtækt almannatryggingakerfi, hvað við viljum reka og ætlum okkur að reka áfram.

Ég fór nákvæmlega yfir það að ég teldi að réttari leiðin væri að skoða þetta allt í samhengi, skattkerfið, almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðina. Það væri vinna því okkur hefur láðst að vinna á umliðnum árum, við kæmumst ekki hjá því að leggja í þá vinnu, ættum að gera það, ættum að leggja okkur fram um það því mjög mikil þörf væri á því ef við næðum nú pólitískri sátt á Alþingi og á vinnumarkaðnum um það hvernig við höguðum þessum hlutum.