132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Þróun matvælaverðs.

[11:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það er örugglega rétt að verð á matvælum er hærra hér á Íslandi en í nágrannalöndunum og það er líka rétt að ef náum verðinu niður mun það bæta kjör fjölskyldnanna. En það er mjög erfitt að bera saman matvælaverð á milli landa vegna þess að það þarf að taka tillit til t.d. styrkjakerfis, hvort verið er að styrkja tiltölulega meira hér framleiðslu matvæla og hvernig á að meta það inn í hvort matvæli séu dýr eða ódýr. Það þarf líka að líta til fleiri þátta. Það þarf að líta til þess hvar maturinn er keyptur á landinu. Ég veit að þar sem lágvöruverslun hefur verið opnuð á landsbyggðinni hefur það bætt kjör manna mjög mikið og þeir sem eiga ekki aðgang að slíkri verslun búa við miklu verri kjör en aðrir.

Nú síðustu vikurnar hefur lækkun matarskattsins úr 14% í 7% verið margrædd og menn hafa spurt sig hvort umrædd lækkun skili sér til neytenda. Ég tel einsýnt að það ráðist af samkeppninni. Ég get tekið undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að það skiptir öllu máli að samkeppni sé virk á markaðnum. Nýleg könnun ASÍ sýndi fram á, þar sem var gerð samræmd vörukaupakönnun, að verð á matvælum hafði hækkað um 17% frá því í sumar í einni lágvöruversluninni. Það sýnir að þegar menn slaka á samkeppninni hækkar einfaldlega vöruverðið.

Eins er áhyggjuefni að hækkandi gengi krónunnar skuli ekki skila sér frekar í lægra matvælaverði.

En það er líka brýnt að hvetja neytendur til þess að vera á vaktinni og sýna aðhald því að það skiptir ekki síður máli (Forseti hringir.) en allar þessar eftirlitsstofnanir.