132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:26]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skildi hv. þingmann þannig að hann styddi málið almennt, enda er Samfylkingin með skýra stefnu.

Í stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar árið 2005 segir:

„Ráðherrar gegni ekki þingmennsku sem m.a. stuðlar að því að skerpa aðgreiningu löggjafar- og framkvæmdavalds.“ — Það er stefna Samfylkingarinnar.

Það er alveg rétt að þegar ráðherrar færu út af þingi þá kæmu varamenn inn. Þá kæmi þar floti af þingmönnum úr stjórnarflokkunum, ekki þá bara í þessu tilviki, ef þetta væri gert núna, úr Framsóknarflokki heldur líka úr Sjálfstæðisflokki. Það skekkir auðvitað myndina, það er rétt, það er sem sagt stærri hópur virkur í atvinnumennsku í pólitík, ef svo má segja.

Þess vegna hef ég velt því fyrir mér hvernig hægt væri að koma til móts við það. Ein leið er að styrkja stjórnarandstöðuna betur en nú er gert með framlögum, og finnst mér það vel koma til greina. Núna eru flokkarnir styrktir með sérstökum framlögum sem eru reiknuð miðað við þingstyrk og eftir ákveðnum lykli. Mér fyndist eðlilegt að styrkja stjórnarandstöðuflokkana til að vega upp á móti þessu þannig að það væri ekki þessi mikli munur á stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni sem gæti skapast við þessa breytingu. Ég þekki ekki hvort þetta er gert þannig í Noregi og Svíþjóð þar sem framkvæmdin er með þessum hætti en ég geri mér grein fyrir því að það væri eðlilegt að skoða einhverjar aðgerðir til að vega upp á móti því sem hv. þingmaður hefur hér áhyggjur af.