132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:49]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að nýta tækifærið hér vegna orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að fylgja sannfæringu sinni. Hann sagðist álíta að stjórnarþingmenn geri það ekki og ungir þingmenn komi inn fullir af hugsjónum og síðan þurfi þeir að fylgja sínum stjórnarflokki o.s.frv.

Maður hefur nefnilega velt því svolítið fyrir sér varðandi Vinstri græna: Eru Vinstri grænir tækir í ríkisstjórnarsamstarf? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því vegna þess að maður hefur séð að sumir vinstri flokkar í nágrannaríkjum okkar eða í Evrópu hafa oft mjög sterkar skoðanir til vinstri, sem er ósköp eðlilegt, þeir standa fyrir það. Sumir þeirra hafa ekki viljað fara í ríkisstjórnarsamstarf af því að þá þurfa þeir að slá af sínum ýtrustu kröfum.

Ég velti þessu fyrir mér þegar hv. þingmaður, ekki bara núna heldur margoft áður, kemur inn á það hve það sé mikilvægt að fylgja sannfæringu sinni og auðvitað er það mikilvægt. En þegar maður er í samstarfi í ríkisstjórn þarf að semja um hlutina og þá geta flokkar lent í því að þurfa að slá af sínum ýtrustu kröfum. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hreint út: Eru Vinstri grænir tækir í ríkisstjórnarsamstarf, þegar það er þeim svona ofarlega í huga að menn eigi ávallt að fylgja hugsjónunum og sinni ýtrustu sannfæringu? Auðvitað á maður að gera það eins og maður getur en það er stundum ekki hægt. Í ríkisstjórnarsamstarfi þarf að semja.

Spurning er því: Eru vinstri grænir tækir í ríkisstjórnarsamstarf einhvern tíma með hv. þm. Ögmund Jónasson innan borðs og aðra sem eru hér á þingi fyrir vinstri græna?