132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

31. mál
[12:17]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvert skattstofninn mundi fara. Þá ætti hann að kynna sér hvaðan skattstofninn kom, því hann var enginn áður en fjármagnstekjuskatturinn var lækkaður og breytt í 10%. Skattur á söluhagnað var t.d. 47% þegar verst lét og þá seldi enginn, frú forseti. Það seldi enginn eign sína þegar ríkið ætlaði að hirða helminginn af hagnaðinum. Skattstofninn varð til úr engu. Það er nákvæmlega það sama sem gerist ef við förum aftur að skattleggja of mikið, þá verður skattstofninn að engu, hann fer til útlanda eða hann minnkar því að menn draga úr sparnaði, sparsama fólkið bara hættir að spara og fer að eyða eins og hinir. Að mínu mati er það ljóður á Íslendingum, sumum hverjum, að þeir eyða ansi glannalega og mættu spara pínulítið meira. Hugmyndir af þessu tagi koma í bakið á þeim sem spara og þeir fara kannski að eyða eins og hinir.

Þetta er nefnilega mjög hvikur skattstofn og að gera ráð fyrir því að hann sé óbreytanlegur þó að skattprósentan sé hækkuð um 80% er, ég veit ekki hvað á að kalla það, barnaskapur.

Auðvitað breytist skattstofninn og ég vil nefna að stærstu skattsvikamál á Íslandi eru ekki í tekjuskatti, þau eru í fjármagnstekjuskatti sem er þó ekki nema 10%. Hann virðist sem sagt vera of hár fyrir suma.