132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

31. mál
[12:20]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessa umræðu höfum við tekið mjög oft. Fjármagnstekjur eru ekki hreinar tekjur. Vextir fela í sér verðbætur sem ekki eru tekjur, það er viðurkennt. Leigutekjur hafa innifalið kostnað við húsnæði sem ekki má draga frá, það er líka viðurkennt. Arður felur í sér áhættu ef hlutabréfin tapast og sömuleiðis söluhagnaður. Ríkinu kemur tapið ekkert við. Menn geta ekki dregið tapaðar fjárfestingar frá tekjum sínum um alla framtíð. Það væri aldeilis munur ef það væri hægt. Fjármagnstekjur eru annars eðlis en launatekjur sem koma beint í vasann hjá mönnum og meira að segja á ábyrgð ríkissjóðs.

En talandi um tekjur ríkissjóðs og þá áráttu að reyna að skipta kökunni. Tekjur ríkissjóðs af fjármagnstekjum hafa stórhækkað, frú forseti, eftir að skatturinn var settur í 10%. Hann var sums staðar lækkaður úr 47% og sums staðar var hann tekinn upp, eins og á vexti, en tekjur ríkissjóðs hafa stórhækkað, möguleikar ríkissjóðs til þess að fjármagna velferðarkerfið hafa stóraukist. Þessi lága skattprósenta hefur líka valdið því að umsvifin í atvinnulífinu hafa aukist gífurlega, útrásin og allt þetta sem við upplifum. Það hefur gert fyrirtækjunum kleift að borga gífurlega hækkuð laun. Launahækkanir á Íslandi eru einsdæmi og ég vil biðja hv. þingmann að nefna eitthvert land þar sem launin hafa hækkað annað eins og á Íslandi síðustu 10 árin. Allt er þetta vegna þess að skattlagningin er lítil og hófleg og hvetur menn til dáða og gerir það að verkum að fyrirtækin geta borgað há laun.

Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður telur það eitthvert sérstakt vandamál hve íslenskir launþegar hafa há laun en ég tel það ekki vera vandamál.