132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:41]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég hafði farið fram á utandagskrárumræðu um þetta mál og óska enn og aftur þess að hún fari fram. Ég tel að yfirmaður menntamála í landinu þurfi að svara fyrir þetta fúsk sem þingið stefnir í, að láta lögfræðing ganga í verk sem hann hefur ekki fagþekkingu til að stýra. Ég er ekki einn um þá skoðun.

Til er félagsskapur undir nafninu Hagþenkir sem vill að fram fari umræða um þetta mál, að menn séu ekki að fúska við að fá einhverja sendiherra til að sinna fræðistörfum. Ég fer þess á leit að yfirmaður menntamála í landinu svari því hver afstaða hennar er til þessa máls. Þetta er ákveðin vanvirðing við sagnfræðinga landsins og ég tel að þingið eigi einfaldlega að draga þessa ákvörðun til baka og endurskoða hana.

Við getum ekki skipað til verka fólk sem hefur enga þekkingu á málefnunum. (SKK: Hann var þó forsætisráðherra.) Jú, hann var forsætisráðherra. Ég heyri að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er mjög ánægður með þetta fúsk. En það eru bara ekki ráðherrar sem rita fræðibækur og hafa það að atvinnu. Ég vona að hv. þingmaður taki tillit til þeirra radda í þjóðfélaginu sem telja að menn geti ekki haldið áfram með þessa sendiherravæðingu, að láta þá í hin og þessi störf, ritstörf af því að það passar inn í eftirlaunalög sem þjóðin er á móti.