132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:09]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var við því að búast að hv. þm. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, hefði ekki áttað sig á því að við störfum á hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem frelsi í fjarskiptum er staðreynd og samkeppni á sviði fjarskiptamála er staðreynd og hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli er það orðið þannig að ríkið eigi fjarskiptafyrirtæki og standi í harðri samkeppni við önnur fyrirtæki á þeim vettvangi. Þetta er nútíminn og miklar hagsbætur hafa fylgt því fyrir okkur að koma á samkeppni á sviði fjarskipta, það fer ekkert á milli mála.

Hins vegar liggur það alveg fyrir að við gerum ráð fyrir á grundvelli fjarskiptalaga svokallaðri alþjónustu og að markaðsráðandi símafyrirtæki verði að sinna henni og þar til viðbótar gerum við ráð fyrir að ríkissjóður kosti tiltekin verkefni í mesta dreifbýlinu.

Hvar eiga mörkin að liggja og hvers vegna er þetta ekki sett í gegnum fjárlög? Það er nú þannig að við erum með Vegasjóð og það apparat, svo að ég noti orð hv. þingmanns, er Vegagerðin sem sér um að taka ákvarðanir um framkvæmdir á sviði vegamála. Með sama hætti er það Póst- og fjarskiptastofnun og stjórn fjarskiptasjóðsins, sem verður verkefnisstjórn einnig, sem mun meta hvar þessi mörk liggja, hvar á að taka ákvörðun um útboð á þjónustu og uppbyggingu þessarar þjónustu. Ég treysti þeim aðilum mætavel og mjög vel. Það liggur mikil undirbúningsvinna að baki þeirri ákvörðun að setja þetta frumvarp fram af hálfu bæði ráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar sem mun sjá um að leggja mat á þetta.