132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Upplýsingaréttur um umhverfismál.

221. mál
[11:14]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um upplýsingarétt um umhverfismál. Eins og fram kom í andsvari hjá mér áðan er það vonum seinna að málið skuli lagt fram en engu að síður er ástæða til að fagna því. Ég tel að um verulega réttarbót sé að ræða með því að almenningur hafi skilgreindar reglur um á hvern hátt sé hægt að nálgast upplýsingar um umhverfismál en þessi lög munu gilda bæði um opinberar stofnanir, alla stjórnsýslu og sömuleiðis um einkafyrirtæki.

Auðvitað er það rétt sem kemur fram í máli hæstv. umhverfisráðherra, að umhverfisréttur í veröldinni hefur þróast á þann hátt að farið er að leggja verulega mikið upp úr því að almenningur hafi slíkan aðgang, hljóti fræðslu í umhverfismálum frá stjórnvöldum og sé upplýstur um rétt sinn í þeim efnum. Það er verulega þýðingarmikið að íslensk stjórnvöld sinni því kalli sínu að fræða fólk um réttinn sem fólginn er í þessum lögum. Mér hefur iðulega fundist skorta á að stjórnvöld séu nógu iðin við að láta almenning vita hver réttur hans er. Það skipti verulegu máli að taugin á milli stjórnvalda og almennings í þessum málum sé þannig að almenningur viti hver réttur hans er. Ég árétta að fræðsluhlutverk stjórnvalda er nokkuð sem hnykkja þarf á í tengslum við þá innleiðingu sem hér er til umfjöllunar.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að markmiðssetning laganna er göfug og vel orðuð:

„Markmið laga þessara er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál.“

Að hluta má segja að ein af stoðunum í Árósasamningnum sem út af stendur, sem ekki er lögleidd með þessu frumvarpi, sé til staðar í markmiðssetningu laganna. Ég tel það vel, þ.e. setningin um að almenningur eigi að hafa kost á aukinni þátttöku í ákvarðanatöku um umhverfismál. Mér hefur fundist sem íslensk stjórnvöld töluðu tveimur tungum í þeim efnum.

Mér hefur ekki fundist íslensk stjórnvöld virða þann sjálfsagða rétt almennings að fá allar upplýsingar og eiga aðkomu að ákvarðanatöku. Mér virðist sem íslensk stjórnvöld hafi fremur þrengt að almenningi hvað þetta varðar. Til marks um það hafa þau t.d. haft horn í síðu frjálsra félagasamtaka sem ítrekað hafa reynt að komast að borðinu. Ég veit ekki betur en að samstarf á milli umhverfisráðuneytisins og frjálsra félagasamtaka sé sáralítið. Ég tel að þar þurfi að gera mun betur til að við getum sagt að hin frjálsu félagasamtök, sem almenningur á aðild að, hafi í alvöru aðgang að ákvarðanatökunni, aðgang að þeim forsendum sem stjórnvöld ganga út frá við ákvarðanatöku í umhverfismálum. Þau þurfa greiðan aðgang að þeim upplýsingum. Hæstv. umhverfisráðherra þarf að viðurkenna þetta. Vonandi gerir hún það og fer að starfa í þeim anda að íslensk frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála eru bandamenn hæstv. ráðherra og þurfa því að eiga opna og greiða leið að málunum.

Mér virðist einnig sem stjórnvöld hafi sniðgengið fagmenn í umhverfisgeiranum. Ég minnist þess er náttúruverndarráð var starfandi samkvæmt lögum. Fyrir örfáum árum gengu stjórnvöld fram fyrir skjöldu og lögðu niður náttúruverndarráð, sem var samstarfsvettvangur fagaðila sem starfa að náttúruvernd. Ég tel það gríðarlegan skaða að svo skyldi hafa farið. Á þeirri spýtu héngu um 8 millj. kr. sem stjórnvöld sögðu að ættu að fara til frjálsu félagasamtakanna. Hins vegar hefur reynst þrautin þyngri að fá stjórnvöld til að viðurkenna þörfina fyrir það að þeir peningar fari óritskoðað til frjálsu félagasamtakanna. Stjórnvöld hafa viljað ritstýra þeim fjármunum og velja þau verkefni sem fjármunirnir eru nýttir til. Það er fyrir neðan allar hellur og stríðir í sjálfu sér gegn markmiði 1. gr. þessa frumvarps sem við ræðum hér. Það verður að tryggja að stjórnvöld tali ekki tveim tungum, beri ekki kápuna á báðum öxlum. Þau verða að ganga fram fyrir skjöldu og sýna að hugur fylgi máli.

Við getum líka nefnt aðgerðir stjórnvalda á síðustu missirum, þar sem réttur almennings til að gera athugasemdir í umhverfismálum og sækja rétt sinn í gegnum dómstóla hefur verið þrengdur. Þar er ég að tala um að gjafsóknarrétturinn hefur verið þrengdur og tekinn frá fólki. Allir vita að gjafsóknarrétturinn náði yfir mál af því tagi, mál sem varða umhverfið. Þegar fólk vildi leita réttar síns í umhverfismálum fyrir dómstólum átti það heimild til gjafsóknar. Ég man ekki í svipinn hvort það var samkvæmt b-lið 126. gr. í lögunum um meðferð opinberra mál sem var breytt, þar sem gjafsóknarrétturinn hefur verið þrengdur. En sú breyting bitnar á því fólki sem vill leita réttar síns í umhverfismálum. Stjórnvöld eru því ekki að praktísera það sem þau predika í þessum efnum.

Ég tel skorta verulega á að stjórnvöld taki til hendinni og viðurkenni þann nútímalega umhverfisrétt sem í orði kveðnu er viðurkenndur. Þegar greinargerðin með þessu frumvarpi er lesin virðast stjórnvöld viðurkenna þann rétt en annað er upp á teningnum þegar til kastanna kemur. Allur tvískinnungur í þessu máli, frú forseti, verður að heyra sögunni til.

Að öðru leyti er hér að baki tilskipun sem er nokkuð flókin. Auðvitað þekkja menn það sem hafa farið í gegnum tilskipanir Evrópusambandsins að þær eru svona og svona og ekki alltaf einfalt að fóta sig í þeim texta. Ég sé hins vegar á greinargerðinni með frumvarpinu að vel hefur verið að verki staðið. Hér eru ýmsar greinargóðar upplýsingar sem eiga eftir að koma að gagni í umhverfisnefnd þegar farið verður yfir frumvarpið. En það sem ég tel mikilvægast í málinu og kem til með að árétta við síðari meðferð þess er að tvískinnungur stjórnvalda í umhverfismálum og afstöðu þeirra til almennings og frjálsra félagasamtaka verður að heyra sögunni til. Sömuleiðis verða stjórnvöld að átta sig á því að handan við hornið er að lögleiða tvær síðari stoðirnar í Árósasamningnum.