132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

20. mál
[15:15]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hér hefur farið fram um þetta mál. En það vekur auðvitað athygli að einungis flutningsmenn þessa máls taka þátt í umræðunni. Ég vona að það sé ekki til marks um að áhuginn hafi dofnað sem ég fann fyrir á síðasta þingi hjá öllum þingflokkum um að á málinu yrði tekið og ráðist í þá rannsókn á þróun valds og lýðræðis sem hér er lögð til. Ég held að það sé afar mikilvægt að það sé gert til þess að styrkja þingið m.a. sem er mjög mikilvægt. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um það að við erum hér að fjalla um grundvallarþætti í öllu okkar samfélagi þegar við fjöllum um lýðræðið og valdið í þjóðfélaginu. Við verðum að vera sívakandi fyrir því hvernig lýðræðið þróast og hvernig með það er farið og það er ýmislegt sem við höfum verið að fara í gegnum á umliðnum árum sem snertir mjög, og kannski miklu meira en áður, þróun lýðræðisins og hvernig farið er með valdið sem hægt væri að hafa langt mál um.

Við þekkjum það að efnahagsleg völd eru að færast á færri hendur í þjóðfélaginu. Við erum ekki, eins og gert var hér kannski fyrir um 20 árum síðan, að tala um milljónamæringa heldur erum við að tala um milljarðamæringa, ekki tugum saman heldur kannski frekar hundruðum og jafnvel þúsundum saman sem um leið fá ákveðin efnahagsleg völd í samfélaginu þegar fjármagnstilfærslan er orðin svona mikil í þjóðfélaginu. Og þá er mikilvægt að lýðræðið sé virkt, að þingið hafi þau tæki sem til þarf til þess að veita framkvæmdarvaldinu ákveðið aðhald, að það hafi þau tæki til þess að smíða þann leikramma sem nauðsynlegur er í þjóðfélaginu til þess að lýðræðið þróist eðlilega í þeim breytingum sem við erum að ganga í gegnum.

Af því að ég nefndi efnahagsleg völd vil ég m.a. draga fram það sem fram kemur í umsögn Sigurðar Líndals prófessors á síðasta þingi um þetta mál. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Með því að draga úr ríkisíhlutun má segja að löggjafinn hafi framselt ákvörðunarvald til landslýðsins, þar á meðal til umsvifamanna í fjármálum og atvinnulífi almennt. Svo virðist sem nokkuð hafi skort á að nægilegu aðhaldi í markaðsviðskiptum hafi verið fylgt eftir.“

Ég held að hér sé ekkert of djúpt í árinni tekið. Við verðum að vera sívakandi fyrir þessu eins og ég nefndi áður. Síðar segir prófessorinn, með leyfi forseta:

„Hins vegar virðist þingið ekki hafa náð fullum tökum á því að setja þjóðfélaginu almennar reglur og veita framkvæmdarvaldi nægilegt aðhald.“

Ég held að það sé mikilvægt að draga þetta inn í umræðuna sem prófessorinn segir um þennan þátt og það minnir á það sem verið var að draga upp í umræðunni, þ.e. hvernig þarf að styrkja þingið með ýmsum hætti og hvernig styrkja þarf líka lýðræði og valddreifingu í þjóðfélaginu. Hér var nefnd þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég held að allir þingflokkar tali um nauðsyn þess að koma á meira lýðræði í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta mál er nú búið að vera hér inni í þinginu svo árum og áratugum skiptir í formi þingmála án þess að mikið hafi hreyfst í því máli. Ég nefni líka þegar við tölum um hvernig þurfi að styrkja þingræðið að við verðum að koma á rannsóknarnefndum í þessu þjóðþingi sem svipar til þeirra sem eru í þjóðþingunum í kringum okkur vegna þess að slíkar rannsóknarnefndir eru mjög öflug tæki til þess að veita framkvæmdarvaldinu nauðsynlegt aðhald.

Hér var líka nefnd skipun dómara og hvernig nauðsynlegt er að fara í breytingar á því að því er varðar val á dómurum og var það rökstutt hér áðan og ætla ég ekki að fara í gegnum það. Vil ég þá aftur draga fram Sigurð Líndal sem segir um þetta mál í sinni umsögn á síðasta þingi, með leyfi forseta:

„Þá er til skoðunar staða Alþingis gagnvart dómsvaldinu, en hlutur dómstóla í mótun og setningu reglna hefur farið vaxandi, ekki einvörðungu hér á landi heldur í flestum nálægum löndum.“ — Og nefnir hann að þetta eigi ekki síst við Evrópudómstólinn.

Undir þetta er hægt að taka en um leið þurfum við að tryggja að ramminn og ákvæðin sem unnið er eftir við skipan dómara sé slíkur að ekki sé staðið að vali þeirra með þeim hætti sem við höfum upplifað á umliðnum árum og hefur þingflokkur Samfylkingarinnar einmitt flutt þingmál um það hvernig við viljum taka á því og breyta.

Aftur ætla ég að vitna í umsögn Sigurðar Líndals, með leyfi forseta, en þar segir hann:

„Þingræði hefur verið hér óskráð venjuréttarregla í 100 ár. Þar sem stjórnarmeirihluti hverju sinni styður ríkisstjórn er hætt við að þingið veiti framkvæmdarvaldinu ekki það aðhald sem vera ætti samkvæmt þingræðisreglunni. Stundum hefur verið haft á orði að þingræði sé í reynd ráðherraræði. Mikilvægt er að kanna hvernig þessi regla hefur þróast síðastliðin 20 ár, jafnvel alla síðastliðna öld og þá sérstaklega hvort raunveruleg samstaða hafi verið meðal þingmanna um að verja stjórnskipulega stöðu Alþingis.“

Hér er vitnað í það sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfum stundum úr þessum ræðustól nefnt ráðherraræði. Það er ákveðið áhyggjuefni hvernig þingið hefur sífellt verið að veikjast gagnvart ráðherraræðinu. Hv. 7. þm. Suðurk. Björgvin G. Sigurðsson fór einmitt inn á þennan þátt varðandi það mál. Hann vitnaði til þessa í greinargerð og dró fram ýmsa þætti því til stuðnings hvernig ráðherraræðið hefur vaxið og hvernig hlutur löggjafarvaldsins er gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það hefur t.d. verið nefnt að ágreiningur hefur verið milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins um fjárhagslegt sjálfstæði Alþingis sem stofnunar auk þess sem það hlýtur að ganga í berhögg við þrískiptingu valdsins að forsætisráðherrann kalli saman þing og slíti því. Það er afar óeðlilegt og því þarf að breyta. Staða Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu er veikari, eins og ég nefndi, þegar ekki er enn meirihlutavilji fyrir því að Alþingi komi á fót þeim rannsóknarnefndum sem ég nefndi og sem geti tekið mál fyrir og rannsakað að því er varðar framkvæmd laga, meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varða. Þetta fyrirkomulag tíðkast víða erlendis og hefur margsinnis verið notað og skilað árangri. Margsinnis hefur líka verið reynt að koma á þeirri skipan hér á landi en án árangurs.

Allt þetta leiðir líka til þess að við stöndum frammi fyrir því að það er til vansa að ekki hafi tekist samstaða um það sem vonandi verður þó breyting á á næstunni meðal þingmanna, þ.e. um að ráðast í nauðsynlega endurskoðun á þingskapalögunum. Þar er ýmislegt sem þarf að taka á og við verðum að setja okkur það markmið í þeirri endurskoðun að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Til þess eru ýmsar leiðir sem við í Samfylkingunni höfum bæði sýnt fram á hér í þingmálum og erum með til umræðu á okkar vettvangi nú ef í það þarfa verk verður ráðist að endurskoða þingsköpin.

Ég hafði ekki tíma til þess í máli mínu áðan að nefna hvernig í þessari tillögu er lagt til að staðið verði að þessari úttekt. Það er mjög vandmeðfarið því hér er, eins og ég nefndi og allir sjá, um viðamikla úttekt að ræða í tillögunni. Nokkrir umsagnaraðilar komu líka inn á það og höfðu ákveðnar skoðanir á því hvernig ætti að standa að þessari úttekt. En hér er lagt til að forsætisráðherra skipi nefnd sem í sitji fimm fulltrúar háskóla. Háskóli Íslands tilnefni tvo fulltrúa og verði annar þeirra formaður nefndarinnar. Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Viðskiptaháskólinn á Bifröst tilnefni einn fulltrúa hver. Verkefni nefndarinnar verði að hafa umsjón með verkinu og fái hún heimild til að kalla til sérfræðinga til að vinna að rannsókninni. Nefndin leggi verkefnaáætlun og fjárhagsramma fyrir forsætisráðherra sem geri tillögur til Alþingis um nauðsynleg fjárframlög til verksins. Nefndin skili áfangaskýrslum eftir því sem verkinu miðar fram og skal rannsókninni lokið eigi síðar en 1. janúar 2008.

Af því sem ég hef hér lýst sést að flutningsmenn málsins hafa gert sér vel grein fyrir umfangi þessa verkefnis og leggja áherslu á að gerð verði ákveðin verkefnaáætlun og fjárhagsrammi sem verði fylgt eftir og gert ráð fyrir í fjárlögum hverjum sinni. Ef vilji er virkilega fyrir því að taka á þessu máli þá er ég sannfærð um það, virðulegi forseti, að við erum að ráðast í brýnt og þarft verkefni sem muni verða okkur mjög mikilvægt vegna þess að út frá þessari rannsókn er hægt að skoða hvort ástæða væri til að bregðast við með einhverjum hætti að því er varðar þá þróun sem orðið hefur á valdi og lýðræði í þjóðfélaginu þannig að á raunhæfan hátt sé hægt að taka á því og meta framhaldið. Með þessu og þeirri leið sem við leggjum til er hægt að varpa skýrara ljósi á þá þróun sem orðið hefur og tilfærslu á völdum og fjármagni og þá, frú forseti, er betur hægt að meta áhrifin á lýðræðisþróunina og samfélagið í heild sinni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta brýna mál. Ég hafði vonast til þess að þeir sem tækju þátt í umræðunni væru ekki eingöngu flutningsmenn málsins heldur mundum við nota þennan ræðustól meira til þess að eiga skoðanaskipti um málið vegna þess að ég hef trú á því að þetta sé mál sem allir þingmenn hafa skoðun á og ég hef trú á því að allir þingmenn hafi jákvæð viðhorf til þess að slík úttekt og rannsókn fari fram. En eitt af því sem við þurfum m.a. að skoða, virðulegi forseti, ef ráðist verður í endurskoðun á þingsköpum, er að þingmál dagi ekki bara uppi eftir fyrstu eða fyrri umræðu og sofni í þingnefndum og þá hægt að þakka fyrir ef þau fara til umsagnar. Mér finnst það vanvirða við þingið og þá þingmenn sem leggja vinnu í að koma hér á framfæri brýnum málum. Eitt af því sem við þurfum að skoða í tengslum við afgreiðslu á nýjum þingsköpum sem vonandi næst sátt um er að það verði skylda þingnefnda að koma málum eftir einhvern tiltekinn tíma aftur inn til þingsins þannig að þingið taki afstöðu til mála en við búum ekki við það, sem er mjög óeðlilegt, að meirihlutavaldið í þingnefndum geti bara að vild svæft brýn þingmál og hér sé ekki með lýðræðislegum hætti tekin afstaða til þingmála eins og þess sem hér er lögð áhersla á.

Ég er sannfærð um það, virðulegi forseti, að ef slík ákvæði væru í þingsköpum, þ.e. að þingnefndum væri gert að afgreiða mál úr nefndum með einum eða öðrum hætti, þá væri það til þess að mál fengju vandaðri umfjöllun í þingnefndum og að tíma þingnefnda yrði líka varið í að skoða þingmannafrumvörp og þingmannamál, en það er til vansa fyrir þjóðþingið hvernig með þau er farið í nefndum þingsins. Yfirleitt er farið á einum eða tveimur klukkutímum fyrir jólahlé og fyrir þinglok á vorin með hraði í gegnum þingmannamál. Þessu verðum við að breyta og ég hvet til þess að það verði gert í tengslum við væntanlega endurskoðun þingskapa.

Það skulu verða mín lokaorð að ég vonast til þess þetta mál komist aftur hingað í þingsali og að tekin verði efnisleg afstaða til málsins.