132. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2005.

Lífeyrisréttindi hjóna.

33. mál
[12:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir, mér liggur við að segja, að halda þessu máli til streitu. Eins og fram kom í máli hans er langt síðan það var fyrst lagt fram og hefur oft verið talað fyrir því. Án þess að ég vilji lýsa yfir fullum stuðningi við málið þá verð ég að segja að ég sáttur við og sammála þeirri grundvallarhugsun sem kemur fram í því.

Það er rétt sem fram kom hjá 1. flutningsmanni, hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, að í reynd er þessu framfylgt í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hann veltir því fyrir sér hvernig standi á því að það hafi ekki verið gert í A-deildinni. Ég held að ástæðan liggi í kynslóðaskiptingu, ákveðnum kynslóðaskiptum, að menn hafi verið opnari fyrir þessari hugsun, gagnvart þeim hjónum þar sem annað vann úti og hitt var meira heima, eins og tíðkaðist áður fyrr. Augljóst er að mikilvægt er að þarna verði skipti vegna þess að lífeyrisréttindin verða í reynd til vegna beggja aðila. Síðan hafa tímarnir breyst og báðir aðilar farið út á vinnumarkaðinn. Þess vegna hefur mönnum ekki þótt eins mikil nauðsyn að gera þetta.

Hins vegar er ég sammála hv. þingmanni um að auðvitað er þetta sameiginlegt átak. Þetta eru réttindi sem eru áunnin með samvinnu beggja aðila. Ég vil lýsa stuðningi við þessa grunnhugsun en ég hygg að ég hafi komið með skýringuna á því að menn fóru ekki með þetta ákvæði inn í A-deild lífeyrissjóðsins. Hins vegar er þess virði að taka það mál til skoðunar.