132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:50]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er meiri asinn á iðnaðarráðherranum að vilja breyta lögum frá 1923. Það er alveg ótrúlega ósanngjarnt að fara fram á það við hv. Alþingi náttúrlega eða hitt þó heldur. Hv. þingmenn eru að halda sömu ræðurnar og þeir gerðu í vor um þessa vatnalagatilskipun sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Það vill svo til að ég er ekki umhverfisráðherra heldur iðnaðarráðherra.

Þau málefni sem tekið er á í frumvarpi til vatnalaga varða iðnaðarráðuneytið og það er þannig í Stjórnarráði Íslands að hver ráðherra fer með sinn málaflokk og þó svo þessi tilskipun sé á leiðinni og varði umhverfisráðuneytið, er m.a. til umfjöllunar hjá EFTA, þá breytir það engu um að mikilvægt er að þetta frumvarp sem ég mæli fyrir núna geti orðið að lögum. Ég er búin að fara yfir þær breytingar sem við leggjum til og einnig þær breytingar sem lagðar eru til með þessu frumvarpi miðað við frumvarpið sem lagt var fram í vor og búið er að hreinsa út ágreining sem óneitanlega var við stofnanir umhverfisráðuneytisins þannig að þær eru fullkomlega sáttar við frumvarpið eins og það er. Ég held því að hv. þingmenn ættu að leggja ræðurnar frá því í vor til hliðar og fara yfir þetta á málefnalegan hátt. Það er engum vandkvæðum bundið í hv. iðnaðarnefnd að fara ofan í hvert einasta atriði eins og eflaust verður gert en ekki gefa sér fyrir fram að þetta sé eitthvað sem ekki er þörf á, þ.e. breytingar frá 1923.