132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Fyrirhugaðar álversframkvæmdir.

[13:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér á Alþingi hefur einmitt verið rætt um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum til að hafa áhrif á atvinnuástandið, á gengisþróunina og á stöðu útflutningsgreinanna. Vorum við ekki að ræða um stöðu rækjuiðnaðarins í gær?

Í dag komu fulltrúar ferðaþjónustunnar á fund samgöngunefndar og sögðu: Haldi þessi stefna áfram verður engin ferðaþjónusta hér á næsta ári. Gengið og stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar eru að drepa ferðaþjónustuna. Í hvaða heimi lifir hæstv. forsætisráðherra Framsóknarflokksins? Stalín hefði varla gert betur við að breyta öllu Íslandi í eina álverksmiðju.

Frú forseti. Afstaða Framsóknarflokksins, þessi blinda áltrú, er með endemum. Þeir láta sér ekki segjast þótt hundruð starfa tapist í öðrum greinum atvinnulífsins og heilu atvinnugreinarnar leggist af, fiskiðnaður, ferðaþjónusta, nýsköpun og útflutningur á hugviti. Það stendur enginn af sér þessa gengisþróun. Það vita allir af hverju hún stafar. Hún er vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Það stóð í skýrslu Seðlabankans fyrir ári síðan að þetta mundi gerast. Svo var verið að segja fólki að bíða, að bíða í eitt ár. Samgönguframkvæmdum var frestað vegna þess að við ætluðum í sérstakt átak í stóriðju. Verða einhverjar samgöngubætur leyfðar eftir þrjú ár ef allt verður komið á fleygiferð aftur í stóriðjuframkvæmdum?

Framkvæmdir hafa verið skornar niður um allt land til að þreyja af þennan stóriðjuáfanga sem nú er í gangi. Á að halda áfram á sömu braut? Á að kyrkja fólk um allt land í þágu þessa álæðis Framsóknarflokksins?