132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Kóngakrabbi.

105. mál
[15:24]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Upp úr árinu 1960 fluttu Rússar kóngakrabba til Múrmansk en náttúruleg heimkynni hans eru í norðanverðu Kyrrahafi. Eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi réttilega er þetta ein stærsta krabbategund heims og verður fullvaxinn allt að 13 kílóum og um tveir metrar milli útréttra klóa.

Á síðustu 15 árum hefur kröbbunum fjölgað gríðarlega og eru nú útbreiddir um allt Barentshaf og suður fyrir Lófóten í Noregi. Árið 2003 var talið að í það minnsta 15 milljón kóngakrabbar hafi verið á svæðinu og fátt bendir til að útbreiðsla hans hafi stöðvast. Þessi vöxtur krabbastofnsins hefur valdið mikilli röskun á jafnvægi í lífríki Barentshafs og Noregshafs svo líkja má við umhverfisslys. Krabbarnir éta nánast allt sem að kjafti kemur frá þörungum til hrogna og seiða af nytjastofnum.

Sem dæmi hefur lífríki Varangursfjarðar gerbreyst af völdum krabbans og veiði spillst verulega. Krabbarnir þvælast einnig í netum sjómanna og skemma þau og enn fremur óttast menn að þeir geti verið hýslar fyrir hættuleg blóðsníkjudýr í fiskum. Á hinn bóginn, eins og réttilega var nefnt, er kóngakrabbi verðmæt sjávarafurð og því eru þeir sem eygja í honum hagnaðarvon ánægðir með tilvist hans. Ólíklegt er talið að tegundin berist af sjálfsdáðum hingað eins og til háttar hér við land. Að líkindum myndar djúprennan milli Skotlands og Færeyja náttúrulega hindrun fyrir útbreiðslu fullorðins kóngakrabba vestur yfir Atlantshafið til Íslands.

Einnig er ólíklegt að sviflirfur krabbanna, þ.e. ungviði, geti borist með straumum til Færeyja. Líklegra er að kóngakrabbinn gæti borist inn á íslenskt hafsvæði af mannavöldum. Slíkt gæti hugsanlega gerst óviljandi t.d. að sviflirfur krabbans bærust með kjölvatni skipa en Náttúrufræðistofnun telur það þó ekki líklega dreifingarleið þar sem lirfurnar mundu væntanlega drepast fljótt. Mun líklegra sé að krabbinn gæti borist hingað af ásetningi vegna fikts eða vegna þess að einhver teldi hag í því fyrir íslenskan sjávarútveg að flytja hann hingað.

Í ljósi þeirra miklu umhverfisáhrifa sem krabbinn veldur og útbreiðslu hans við Noregsstrendur er rík ástæða fyrir íslensk stjórnvöld til að gera allt sem unnt er til að hindra flutning lifandi kóngakrabba á íslenskt hafsvæði. Mun ég á næsta fundi norrænna umhverfisráðherra taka þetta mál upp og óska eftir samvinnu hinna vestnorrænu ríkja um aðgerðir til að stemma stigu við mögulegum flutningi krabbans á Íslandsmið. Einnig mun ég í samvinnu við sjávarútvegsráðherra kanna hvort ekki sé rétt að banna flutning lifandi krabba á íslenskt hafsvæði og jafnframt að hrinda af stað átaki til að upplýsa sjómenn og farmenn um þann usla sem kóngakrabbinn getur valdið.