132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í lok október urðu einhverjar mestu náttúruhamfarir síðari tíma í norðurhluta Pakistans. Í jarðskjálftum sem þá riðu yfir missti yfir hálf milljón manna heimili sín. Þau hrundu til grunna. Heimili yfir þriggja milljóna manna eyðilögðust eða urðu fyrir verulegum skaða og það segir sig sjálft að allt stoðkerfi, vatnslagnir, skolplagnir og annað af því tagi er úr skorðum gengið. Yfir 70 þúsund manns a.m.k. létu lífið og annar eins fjöldi slasaðist.

Nú berast fréttir af því að sjúkdómar breiðist út í tjaldbúðum á þessum slóðum og einnig að veður fari kólnandi, vetur er að ganga í garð þannig að vá er fyrir dyrum.

Þann 26. október kallaði Alþjóðarauðikrossinn eftir 152 millj. svissneskra franka, það er um 7 milljörðum íslenskra króna, til að styðja við hjálparstarf en aðeins tæplega helmingur þessa fjár hefur skilað sér á hjálparsvæðin. Rauði kross Íslands hefur staðið sig ágætlega í þessu verkefni en betur má ef duga skal. Hann hefur safnað um 46 millj. kr. Að hluta til hafa borist peningar frá Reykjavíkurborg og einnig frá ríkinu sem lætur rúmlega 18 millj. kr. af hendi rakna. Það er rúmlega helmingurinn af því sem við studdum fórnarlömb í suðurhluta Bandaríkjanna með þegar fellibylurinn Katrín reið þar yfir. Ég vek athygli á því að Íslendingar ætla að láta 87 millj. kr. til þess að styðja flug NATO til Íraks og Afganistans. Nær væri að snúa þessari tölu við og láta milljónirnar 87 ganga til fórnarlambanna í Pakistan.