132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Aðstoð við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan.

[13:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þarna urðu miklar náttúruhamfarir og margir eiga um sárt að binda eins og reyndar á fleiri stöðum vegna annarra atburða sem hann nefndi einnig í ræðu sinni. Það getur auðvitað verið umdeilanlegt hversu miklum fjármunum við verjum til þess að styðja uppbyggingu eftir einstakar náttúruhamfarir eins og fram kom hjá hv. þingmanni. Þá getur það líka verið umdeilanlegt hvernig mælikvarða við leggjum á það hvernig við metum hversu mikið við eigum að leggja fram á hverjum tíma.

Ég hef ekki á hraðbergi tölur til að leggja einhverja mælikvarða á það sem hv. þingmaður var að tala um en hér er hins vegar verið að fjalla um ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar og þá var það metið að þær upphæðir sem þar koma fram væru við hæfi. Ég skil það vel að við viljum ræða þetta og við fáum sennilega gott tækifæri til þess síðar í dag, því a.m.k. ein þessara tillagna sem hér um ræðir er í fjáraukatillögum sem bornar eru fram af fjárlaganefnd í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Síðar í vikunni fer fram umræða um utanríkismál þar sem líka gefst tilefni til að ræða þetta sérstaklega og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni taka þátt í báðum þeim umræðum og vekja máls á þessum hlutum.

Það má líka vekja athygli á því að á vegum Rauða krossins er söfnun í gangi þar sem þeir sem vilja sýna þessu máli stuðning fá möguleika til þess og geta lagt sitt til. En ég ítreka að það er auðvitað umdeilanlegt hverju sinni hvað við eigum að leggja mikið til en við erum eins og vitað er eftir þessi skref að reyna að leggja eitthvað af mörkum.