132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:10]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alrangt hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að stefnumörkun skorti. Við samþykktum samgönguáætlun á Alþingi fyrir stuttu. Eftir henni vinnum við og samkvæmt þeirri samgönguáætlun er ekki gert ráð fyrir neinum framkvæmdum á þessu tímabili sem eru fjármögnuð með notkunargjöldum eða gjöldum vegna Hvalfjarðarganga. Sú stefnumörkun liggur því algerlega ljós fyrir og var í samræmi við tillögur mínar. (Gripið fram í.) Eftir þessu er unnið í dag þannig að Alþingi er ekki að taka neinar ákvarðanir um framkvæmdir í samgöngumálum sem kalla á frekari stefnumörkun hvað gjaldtöku varðar þannig að þetta er allt í fullkomlega eðlilegum farvegi. Eins og ég sagði í svari mínu er næsta skrefið í því máli endurskoðun 12 ára áætlunar. Þá tökum við ákvörðun um hvernig við mótum framtíðarstefnuna í gjaldtökumálum vegna samgöngumannvirkja. Eftir þessu vinnum við og það er fullkomlega eðlilegt.

Hvað varðar umræður um gjaldtöku af Hvalfjarðargöngum og fleiru fagna ég því sem kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur. Ég er alveg sammála henni að við megum ekki eyðileggja þann möguleika í framtíðinni að við getum farið í framkvæmdir á forsendum einkafjármögnunar og einkaframkvæmdar í samræmi við það sem við gerðum í Hvalfirði sem hefur gefist svo vel og við þekkjum. Við þurfum að halda öllum þessum möguleikum opnum og standa þannig að málum að við getum hraðað uppbyggingu samgöngumannvirkja eins og gert var þegar Hvalfjarðargöngin voru grafin. Það var vegna þess að við vildum fara hraðar, stytta leiðir og þess vegna var sú leið valin og það þýðir ekkert annað fyrir menn en viðurkenna að þær ákvarðanir voru teknar á Alþingi.