132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Tvöföldun Vesturlandsvegar.

198. mál
[14:21]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst frestun á þeim hluta framkvæmdarinnar að breikka veginn frá Skarhólabraut að Langatanga vera mistök. Verulega mikil mistök í vegagerð, í fyrsta lagi vegna þess að það þurfti að leggja hvort sem var í töluverðan kostnað til þess að ná tveimur akreinum frá Mosfellsbæ til Reykjavíkur eins og gert var og það þarf þess vegna að fara tvisvar í framkvæmdir á þessu sama svæði og þetta er stuttur kafli. Þeir sem koma frá Reykjavík á leið upp í Mosfellsbæ lenda í því að allt í einu er orðin ein akrein fram undan þegar þeir koma að Skarhólabrautinni. Af þessu er slysahætta. Ég tel að þarna hafi menn gert mistök.

Það er ekki eins alvarlegt þó að menn hafi frestað því að klára tvöföldunina upp að Þingvallaafleggjaranum. En þetta eru að mínu viti hlutir sem menn eiga ekki að hnjóta um í, þ.e. að skilja eftir smábúta af svona dýrum og stórum framkvæmdum eins og þessi var.