132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Bílaumferð og varpstöðvar.

262. mál
[15:31]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir að vekja athygli á þessu málefni og þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er grátlegt að horfa upp á það þegar kannski einn bíll ekur óvarlega um vegi gegnum varplönd. Hann getur orðið tugum kríuunga, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, að aldurtila.

Það er mikilvægt að halda á lofti umræðunni um umgengni almennings í nágrenni þessara svæða. Ég get vitnað um að oft skortir á að menn gangi eða aki um slíkar perlur af nægilega mikilli nærgætni.

Hæstv. forseti. Ég þekki örlítið til í kjördæmi hæstv. ráðherra, t.d. í Fljótum í Skagafirði þar sem mikið kríuvarp og varpland er og vildi því spyrja hæstv. ráðherra hvort landeigendur eigi greiðan aðgang að þeim viðvörunarskiltum sem hæstv. ráðherra nefndi áðan og nefnast Varúð – varpland, hvort aðgengi að þeim sé gott.