132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Aðgerðir í málefnum heimilislausra.

91. mál
[10:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og gleðst yfir því að lausn skuli vera í sjónmáli fyrir nokkra þessara einstaklinga. En ég segi það sama og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir að mér kemur á óvart hvað fækkað hefur í þessum hópi sem var á annað hundrað manns og maður veltir fyrir sér hvort þessi skilgreining sé of þröng. Ég spyr ráðherra hvort þessi hópur hafi skilað skýrslu sem við gætum fengið til þess að skoða rökin sem eru á bak við þá niðurstöðu sem þar kemur fram.

Ég verð að segja það líka, virðulegi forseti, að það er auðvitað mjög hægt farið í sakirnar. Við erum búin að bíða eftir því í 2–3 ár að fá lausn á vanda þessa hóps. Við þingmenn verðum mjög vör við þennan hóp þar sem margir af þessum einstaklingum halda sig nærri Austurvellinum. Það á líka að fara mjög hægt af stað, einungis er hugað að lausn fyrir átta einstaklinga á árinu 2006 og þetta er tilraunaverkefni til þriggja ára. Ef vel tekst til á að huga að öðrum átta á árinu 2007. Ég hef áhyggjur af þeim 30 manna hópi sem stendur eftir og hugsanlega er líka ástæða til að hafa áhyggjur af þeim 50–60 manna hópi sem ekki hefur lent í þessari skilgreiningu. Ég er viss um að þar er hópur sem býr við mjög bága húsnæðisaðstöðu þó hægt sé að kalla að þeir hafi þak yfir höfuðið. En það er auðvitað til vansa fyrir okkur að þarna skuli vera þó þetta stór hópur sem býr hreinlega á götunni og veit ekki hvar hann á að gista frá einni nótt til annarrar. Þetta er auðvitað til skammar fyrir velferðarþjóðfélagið og auðvitað ber að fagna því sem ráðherra lýsti að farið sé að taka á vandanum.

Virðulegi forseti. Ég spyr ráðherra: Er ekki hægt að gera betur fyrir þennan hóp? Það eru 30 sem standa þarna út af, bíður þeirra enn næstu 3–4 árin að gista hér undir berum himni kannski á köldum vetrardögum?