132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Jafnréttisfræðsla fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana.

256. mál
[12:04]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að upplýsa nákvæmlega það sem ég gaf í skyn áðan, þ.e. með hvaða hætti ég ætlaði mér að ná til samráðherra minna um fræðslu í jafnréttismálum. Það kemur í ljós. Hins vegar, af því að minn góði vinur landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson er gjarnan nefndur til sögunnar við þessa umræðu, þá væri sennilega besta leiðin til að lokka hann á slíkt námskeið að bera fram vel kryddað lambaket til að hafa í hádeginu.

En um þann ágæta mann, hæstv. landbúnaðarráðherra, ég vil líka bera blak af honum, hæstv. forseti, hefur verið haldið fram í umræðunni að hann hafi staðið sig manna verst í þessum málum, sem ég vísa á bug. Landbúnaðarráðuneytið hefur unnið og samþykkt sérstaka jafnréttisáætlun fyrir ráðuneytið þannig að þeim málum hefur verið kippt í liðinn.

Ég mun að sjálfsögðu hvetja, ekki bara ráðherra heldur alla karla, þingmenn og aðra og ekki síst hv. þm. Össur Skarphéðinsson til að koma á karlaráðstefnuna sem haldin verður á fullveldisdaginn 1. desember næstkomandi. Ég er viss um að þar verður safn góðra karla sem láta sig jafnréttismálin varða og eru ákveðnir í því að þoka þeim í rétta átt með fulltingi góðra kvenna.