132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Eingreiðsla til bótaþega á stofnunum.

[15:21]
Hlusta

Guðmundur Magnússon (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls mín þakka hæstv. ríkisstjórn fyrir hve hratt og rétt stjórnin brást við óskinni um að lífeyrisþegar nytu sömu kjara og almennir launamenn.

Síðast í gær sagði einn félagi minn: Þetta bjargar jólunum í ár. En betur má ef duga skal. Nú þegar aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um eingreiðslu í desember og hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að lífeyrisþegar skuli sitja við sama borð vil ég spyrja hæstv. heilbrigðis- og tryggingaráðherra hvort áformað sé að öryrkjar og eldri borgarar sem dvelja á stofnunum fái ekki eingreiðslu í samræmi við það.

Frú forseti. Sá hópur öryrkja og eldri borgara sem e.t.v. er hvað verst settur fjárhagslega eru þeir sem einungis fá vasapeninga eða hæst 21.993 kr. á mánuði. Einhverjir eru svo vel settir að hafa góða lífeyrissjóði til að hverfa til en því miður allt of fáir, enda lífeyrissjóðirnir ekki komnir með þann slagkraft sem lagt var upp með. Enn eru margir eldri borgarar sem ekki hafa greitt í lífeyrissjóð eða fatlaðir sem aldrei hafa komist út á vinnumarkað. Tekjur umfram 7.186 kr. á mánuði skerða vasapeningana um 65% þeirra tekna sem umfram eru. Af eldri borgurum eru það í flestum tilfellum konur sem ekki hafa aðgang að lífeyri eða hafa ekki neinar aðrar tekjur. Ég geri fastlega ráð fyrir að þessi hópur eins og aðrir vilji halda gleðileg jól og geta þá keypt eitthvert lítilræði handa börnum, barnabörnum og vinum og að ríkisstjórnin sjái til þess að þessi hópur fái uppbót á vasapeningana.

Frú forseti. Ég treysti því að hæstv. ríkisstjórn Íslands sjái að hér er um jafnræðis-, jafnréttis- og sanngirnismál að ræða og geri lagfæringar strax.