132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. 2. þm. Norðaust. Halldórs Blöndals um að menn haldi ró sinni og taki á þessum málum af skynsemd. Auðheyrt er á þingmönnum að þeim finnst eðlilegra að fyrst sé tekið til umræðu mál nr. 8 á dagskránni, Réttarstaða samkynhneigðra. Það er mál sem lengi hefur verið beðið eftir að kæmi inn í þingið og er í sjálfu sér tímamótamál þó að ég sé alveg sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um að ekki eigi að vera neitt uppþot í kringum það mál, enda hefur enginn nefnt það nema sá hv. þingmaður að uppþot eigi að vera í kringum það.

Mér finnst bara eðlilegt, frú forseti, að þetta mál komi á undan. Mál nr. 7, Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu, er mjög umdeilt mál, hefur reyndar áður komið inn í þingið og var þá vísað aftur heim. Ekkert knýr á um að það megi ekki bíða í klukkutíma, eða ekki get ég séð rökin fyrir því. (Gripið fram í.) En það er alveg furðulegt að þetta er í annað skiptið sem troða á þessu máli hæstv. iðnaðarráðherra inn í umræðu um önnur mál. Síðast þegar verið var að ræða skýrslu utanríkisráðherra var reynt að troða því inn í þá umræðu miðja, formanns Sjálfstæðisflokksins, og nú á troða því aftur fram.

Mér finnst, frú forseti, að ef það er eitthvert vandamál að taka ákvörðun á staðnum eigi að fresta fundi og forseti ræði við formenn þingflokka um að þessari röðun mála sé hagað til þannig að þingheimur sé sáttur.