132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[17:35]
Hlusta

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur hæstv. forsætisráðherra mælt fyrir mjög merkilegu máli, máli sem sennilega flestallir þingmenn hafa beðið eftir að kæmi fram en mikil og góð vinna liggur að baki þessu frumvarpi. Það er búið að vera í meðförum embættismanna, ráðuneyta og víðar og afraksturinn er þetta góða frumvarp þannig að í dag er kannski einhver stærsti réttindadagur í þinginu hin síðari ár. Ég óska þingheimi og forsætisráðherra til hamingju með afraksturinn.

Mig langar aðeins að fara yfir forsöguna í þessu máli. Þannig var að árið 2000 bað ég um skýrslu um stöðu sambúðarfólks. Ég lét vita af því í dómsmálaráðuneyti að ástæðan fyrir skýrslubeiðninni væri sú að með því að skoða stöðu sambúðarfólks kæmumst við að því hvernig staða samkynhneigðra væri. Þá kom auðvitað í ljós að í rauninni bara með því að samkynhneigðir gætu ekki skráð sig í sambúð fóru þeir á mis við margfaldan rétt, eins og hv. þingmenn sjá á öllum þeim breytingum sem þarf að gera einungis til að heimila sambúðina. Þessi skýrsla var gríðarlega vel unnin af Hrefnu Friðriksdóttur lögfræðingi sem vinnur á Barnaverndarstofu og þar var farið yfir helstu lög er lúta að sambúð. Það varð síðan úr að ég kom hér með tillögu um skipan nefndar sem kanna skyldi réttarstöðu samkynhneigðra og þar gæti fyrrnefnd skýrsla legið til grundvallar. Þar með væri búið að vinna ákveðna grunnvinnu og væri mjög þarft að fara yfir þau mál. Ég átti gríðarlega gott samstarf við þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson um þetta mál og það lukkaðist afar vel með skipun nefndarinnar og þá fínu skýrslu sem hún lagði fram þekkja flestallir hér inni. Þar er tekið á því helsta sem við sjáum hér í dag að liggur frammi í frumvarpsformi.

Við vitum líka að mjög miklar viðhorfsbreytingar hafa orðið í samfélaginu. Nú orðið er gríðarlegur stuðningur við stöðu samkynhneigðra og að samkynhneigðir njóti fulls jafnræðis gagnvart gagnkynhneigðum.

Helstu breytingarnar leiða auðvitað af því að geta skráð sig í sambúð. Hæstv. forsætisráðherra fór að hluta til að sjálfsögðu yfir helstu málin hér en t.d. ættleiðingarmálin eru afar brýn og nú eru þau komin í höfn. Það er líka afar mikilvægt að Ísland nái samningum við þau lönd sem jafnframt heimila ættleiðingu til samkynhneigðra. Það nægir að nefna ákveðin lönd í Suður-Ameríku og eins í Afríku. Heimurinn er fullur af börnum sem beðið er eftir víða um heiminn þannig að það er eitthvað sem þarf að skoða sérstaklega og við getum ekki verið með hindrun í okkar lögum um að samkynhneigðir geti ekki fengið börn erlendis frá. Þarna þyrfti kannski að vinna að samningum við þau lönd sem slíkt leyfa og þar getum við kannski litið til Svíþjóðar en Svíar eru þegar byrjaðir að vinna að þessu og við getum kannski nýtt okkur það að hluta til.

Í frumvarpinu næst fram mikill árangur varðandi tæknifrjóvganir, það er mikil réttarbót. Þeir sem til þeirra mála þekkja vita að konur hafa verið að fara til Danmerkur í tæknifrjóvgun. Eins og staðan er núna er hún kannski sú sama og hún var hjá gagnkynhneigðum áður fyrr þegar notað var gjafasæði, þá þurfti að ganga frá ættleiðingu. Það var langt ferli eftir að barnið fæddist og hafði líka áhrif á fæðingarorlofið. Nú verður þetta heimilt hér hjá okkur þegar þessi lög verða að veruleika og allt uppi á borðinu. Ég vil líka minna á könnun sem kom í Fréttablaðinu í gær sem sýnir umburðarlyndi þjóðarinnar gagnvart málinu.

Það hefur líka heilmikið verið rætt um nafnlausa sæðisgjafa og ég legg til líka að við skoðum það mál vel. En það er kannski augljóst þegar um tvær konur er að ræða að þær þurfi að segja barni sínu hvernig það varð til en það hefur hins vegar alltaf farið leynt hjá gagnkynhneigðum pörum og ekki verið talið vandamál þannig að þetta er eitt af því sem þarf að skoða. Hv. allsherjarnefnd mun að sjálfsögðu gera það, þannig að hér er um gríðarlega mikla réttarbót að ræða.

Ráðstefna vísindasiðanefnda Norðurlandanna var nýlega haldin í Finnlandi og þar var farið yfir stöðuna alls staðar á Norðurlöndunum gagnvart nafnlausum sæðisgjöfum og þá kom í ljós að Svíar eru þeir einu sem eru með það ákvæði að þegar börn eru 18 ára megi þau vita hver sæðisgjafinn er. En það er afar brýnt og það er alveg sama hvort það er í þessu máli eða gagnvart öðrum hjónum, ég greini ekki þar á milli, það er alltaf ábyrgðarhluti að eiga börn og ala þau upp og að gera þeim grein fyrir hvaðan þau koma. En sá hópur sem ég treysti afar vel til að axla þá ábyrgð er að tvær konur geri slíkt.

Í skýrslunni, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan, komu ekki sérstakar tillögur út varðandi kirkjuna annað en hvatning til þjóðkirkjunnar. Hins vegar hef ég alla tíð sagt að það er kannski ekkert óeðlilegt að slíkt komi ekki fram í frumvarpinu en ég vil að við klárum þennan pakka og lokum hringnum og ég hef í því skyni kynnt ákveðnar breytingartillögur.

Fyrst og fremst eru það breytingartillögur á 1. og 7. gr. hjúskaparlaganna og aðallega á 4. gr. staðfestrar samvistar, því að í lögunum um staðfesta samvist kemur í rauninni fram að það séu einungis sýslumenn sem geti gefið samkynhneigð pör saman. Þar þarf að koma inn viðbót um að jafnframt þeir sem eru fulltrúar safnaða sem slíkt samþykkja geti framkvæmt staðfesta samvist. Við erum í rauninni ekki að tala um mjög stórar breytingar. Ég hef rætt við marga menn innan kirkjunnar og safnaða, bæði þjóðkirkjunnar og hinna ýmsu safnaða og það er talið að kannski væri eðlilegt að fyrsta skrefið væri að söfnuður fengi þessa heimild. Ég treysti þjóðkirkjunni fyllilega til að vinna áfram og vinna vel í þessum málum og þar er mikil vinna í gangi. Þetta er stórt skip sem þarf að snúa, með mörgum innan borðs og við eigum að anda rólega með því þannig að pressan verði ekkert of mikil þar, en að gefa þeim söfnuðum, því þeim er þetta ekki heimilt núna, leyfi til að framkvæma slíka athöfn. Eftir nokkur ár kemur auðvitað að því að lögin um staðfesta samvist munu falla um sjálf sig og verða afnumin og lög um hjónaband og annað munu gilda líka um þennan hóp. En ég legg til að við ræðum það í hv. allsherjarnefnd og sú tillaga mun verða lögð þar fram í upphafi þannig að við getum rætt það við kirkjunnar menn sem við munum kalla á okkar fund og ég veit að það er allt á rólegum og málefnalegum nótum, þannig að ég hef ekki áhyggjur af því. En þegar ég tala um 1. og 7. gr. hjúskaparlaga þá er ég fyrst og fremst að tala um það að við förum að tala um einstaklinga en ekki mann og konu. Þannig gætum við leyst þetta og það er afar mikilvægt að hinir ýmsu söfnuðir sem þegar hafa samþykkt slíkt en ekki getað framkvæmt það vegna lagahindrana, þeir geti gert slíkt hið sama.

Við höfum heldur aldrei litið svo á með gagnkynhneigða að hjónavígsla framkvæmd hjá sýslumanni sé ekki lögð að jöfnu hjónavígslu framkvæmdri í kirkju, þannig að mér finnst afar mikilvægt að kirkjan taki á móti þeim hóp sem svo kýs. Við skulum ekki gleyma því að það eru ekki allir sem þetta kjósa. Þess vegna hafa margir prestar viljað taka á móti því fólki sem þess óskar og ég held að við ættum að taka rólega og góða umræðu um þetta í hv. allsherjarnefnd.

Við vitum líka að í umræddri skýrslu um samkynhneigða var jafnframt tekið á öðrum þáttum sem ekki kröfðust endilega lagabreytinga. Þar má t.d. nefna vinnumarkaðsmál og mismunun vegna kynhneigðar á vinnumarkaði. Það eru mál sem þarf að rannsaka og ég veit að félagsmálaráðuneytið er að vinna í því.

Jafnframt er auðvitað verið að vinna að málum í menntamálaráðuneytinu varðandi fræðslu og leiðsögn þannig að vel sé farið með þessi mál og að fordómum gagnvart samkynhneigðum í skólunum verði úthýst og þar er talsverð vinna í gangi. Eins og ég segi er verið að vinna á mörgum vígstöðvum og í frumvarpinu eru einar 37 lagagreinar, ef mig man rétt, og því fylgir afar skýr og góð greinargerð fyrir þá sem vilja kynna sér málið.

Að lokum vil ég aðeins segja að í dag er stór dagur. Við erum að jafna stöðu einstaklinga. Við erum ekki lengur að mismuna fólki vegna kynhneigðar. Við erum í rauninni að stíga stór skref í átt til jafnréttis og þetta er mikill sigurdagur. Og hann verður enn stærri þegar við erum búin að fara yfir málið í nefnd, skoða það sem við þurfum að skoða, bæði varðandi kirkjunnar mál, gjafasæði, barnalögin og annað sem er eðlilegt að skoða en sigurinn er samt sem áður í höfn og ég óska okkur öllum hér inni til hamingju með daginn.