132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Staða framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun.

120. mál
[12:27]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Því miður er það svo með framkvæmdirnar við Kárahnjúka að þær voru knúnar áfram á pólitískum forsendum en ekki miðaðar við framkvæmdahvata eða þær rannsóknir sem gera þyrfti áður en þær fara í gang. Í svari ráðherrans kom fram að í fyrsta lagi er verið að klára núna skýrslu um misgengi, í öðru lagi er verið að klára nýja skýrslu um jarðskjálftahættu og í þriðja lagi er Landsvirkjun þrátt fyrir að allt sé í lagi að fara út í nýtt áhættumat. Það eru sem sagt þrjár skýrslur á þessum tíma, og þær viðamiklar.

Hæstv. ráðherra svaraði því auðvitað ekki hvað þessar skýrslur kostuðu en menn halda í putta og eru búnir að gera það mjög lengi með hinn fræga bor í misgengjunum þremur og með þessa framkvæmd alla vegna þess að menn vilja eins lengi og hægt er að það sé með þeim hætti sem ráðherra sagði ástæðulaust og ótímabært að svara nokkrum einustu spurningum um þessa framkvæmd. Það er óþægilegt að svara þeim og menn vilja fresta því í lengstu lög.