132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Staða framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun.

120. mál
[12:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru á margan hátt upplýsandi þótt augljóslega sé reynt að láta þetta bera þann svip að allt sé samt með eðlilegum hætti og bjargist. Á hinn bóginn staðfestist í þessum svörum það sem hefur komið fram með ýmsum hætti á undanförnum mánuðum og missirum, að þarna hafa menn ratað í gríðarlega erfiðleika, að undirbúningi framkvæmdarinnar er stórlega ábótavant. Það hljóta að koma upp spurningar af margvíslegum toga um vinnubrögð og ábyrgð og um hvernig að svona löguðu er staðið, t.d. þegar gögn sem lögð voru til grundvallar umhverfismati reynast alls ekki standast. Menn hafa greinilega fegrað mjög fyrir sér aðstæður. Það er reyndar ekki eins og það sé nýtt. Á það var bent þegar á þeim tíma af merkum jarðvísindamönnum, t.d. Guðmundi heitnum Sigvaldasyni, en ekkert með það gert fyrr en menn fá þetta í hausinn, fyrr en margra milljarða kostnaður og gríðarlegir erfiðleikar rísa í sjálfri framkvæmdinni.

Auðvitað vonar maður að stíflurnar standist og að áhættumatið leiði í ljós að verjandi sé að taka mannvirkið í notkun. Ég verð þó að leyfa mér að draga verulega í efa að hægt sé að fullyrða sem stendur að ekki sé nauðsynlegt að breyta áhættumatinu og hvaða afleiðingar það mögulega geti haft, að fylla Hálslón á þessu virka sprungusvæði, a.m.k. hvað varðar lekamöguleika svo ekki sé talað um alvarlegri hluti eins og mögulegt stíflurof. Fjögurra mánaða töf er á jarðgangagerðinni sjálfri, sem ekki sér fyrir endann á samkvæmt fjölmiðlafregnum fyrir nokkrum dögum, m.a. úttekt Morgunblaðsins.

Fyrir um mánuði var sagt að næstu tveir mánuðir yrðu úrslitatíminn og gætu skipt sköpum fyrir Kárahnjúkavirkjun. Það var orðað þannig. Nú er annar þessara mánaða liðinn og lítið verið um sérstaklega góðar fréttir. Þær eru yfirleitt fljótar að koma á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar ef þær eru einhverjar. Það má því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig standa málin þegar annar mánuðurinn af tveimur er liðinn, sem menn töldu sig hafa til þess að koma hlutunum í lag?