132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:04]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að mörgu leyti var ánægjulegt að hlýða á ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Það er augljóst að hæstv. ráðherra kemur hér fullur áhuga í þetta nýja ráðherraembætti og kynnir sér hlutina og heldur sig býsna málefnalega í umræðunni og er það þakkarvert. Það sem hins vegar var athyglisverðast, og ég bjóst nú við að hann mundi nota meginhluta ræðu sinnar í, var að ræða um það hvernig við notum fjárlögin til að hafa áhrif á efnahagsmálin, hvernig fjárlögin eru hjá okkur t.d. í samanburði við önnur lönd, hvaða virðingu við berum fyrir fjárlögunum. Ég átti von á því að hæstv. ráðherra mundi leggja fyrst og fremst út af því að nú væru breyttir tímar fram undan, að nú ætti að líta á fjárlög eins og önnur lög. Ég hélt að hann mundi nýta tækifærið til þess þegar við bendum á tilfærslurnar og það að auðvitað er ekki í lagi að færa um 20 milljarða (Forseti hringir.) á milli ára eins og bent hefur verið á. (Forseti hringir.) Það segir okkur eingöngu, því miður, að fjárlögin segja (Forseti hringir.) ekki það sem þau eiga að segja um stöðuna í ríkisfjármálum.