132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[17:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átti um nákvæmlega þetta mál mjög athyglisverðar umræður við núverandi hæstv. forseta ekki alls fyrir löngu sem hv. þingmaður hefur greinilega misst af. En það er ljóst að fylgja þarf fjárlögunum vel eftir og það hefur verið gert. En það er þannig á bestu bæjum að yfirleitt má úr ýmsu bæta og svo er á þessum bæ eins og öðrum. Það kannast alveg örugglega allir við það í hæstv. ríkisstjórn og við munum leitast við, eins og við höfum gert á undanförnum árum, að bæta ríkisfjármálin og ef við verðum eins dugleg og við höfum verið að undanförnu mun það auðvitað leiða til þess að í framtíðinni verður staða ríkissjóðs enn betri en hún er í dag.