132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:59]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að veita örstutt andsvar við ræðu hæstv. ráðherra.

Vissulega þarf að endurskoða almannatryggingalögin, helst í heild en a.m.k. lífeyriskaflann í heild. Það er orðið mjög brýnt. Hæstv. ráðherra hefði átt að hafa tök á því þann tíma sem hann hefur verið í ráðuneytinu. Fyrirrennari hans í starfi hóf slíka endurskoðun en guggnaði á henni.

Varðandi bensínstyrkinn og að aðrir en öryrkjar hafi fengið hann. Hann var og er ætlaður hreyfihömluðum. Segja má að hreyfihömlun hafi verið nokkuð vítt skilgreind. Blindir fengu styrkinn t.d. og lungna- og hjartasjúklingar sem eiga erfitt með að hreyfa sig. Það er líka ákveðin hreyfihömlun fólgin í þeim sjúkdómum. Enginn fær bensínstyrkinn nema vera með vottorð frá lækni um slíkt. Læknar hafa þá gefið út fölsuð vottorð ef hæstv. ráðherra heldur þessu fram. Auðvitað á ekki að fella hann niður þó að ráðherra finnist heimildirnar of rúmar. Hann á þá að taka á skilgreiningunni.

Af því að hæstv. ráðherra talaði um starfsendurhæfinguna sem ekki kemur til vegna þess að bensínstyrkurinn verður áfram þá langar mig að segja að skortur á starfsendurhæfingu kemur niður á velferðarkerfinu aftur, svo sem í auknum kostnað í lyfjaútgjöldum ríkisins, í læknisþjónustu o.s.frv. Þetta bara bítur í skottið á sjálfu sér. Ég vil minna ráðherra á þetta.

Ég fagna því að mér heyrist á hæstv. ráðherra að hann ætli að hætta við að láta fólk sem Tryggingastofnun telur að hafi fengið fullar greiðslur fara í jólaköttinn. Ég fagna því og spyr hæstv. ráðherra hvort ég hafi ekki skilið hann rétt í því að (Forseti hringir.) hann ætli að bakka með að láta fólk verða greiðslulaust frá TR um jólin.