132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Verðsamráð olíufélaganna.

[10:10]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Auðvitað er það ótækt að mál af þeim toga sem olíumálið er skuli ekki vera afgreitt, að við skulum vera að velkjast með það í dómskerfinu og í umræðum um mögulegar bótakröfur. Það er ótækt að við skulum láta það liggja áratugum saman óafgreitt og óuppgert í íslensku samfélagi. Það er ótækt. Að sjálfsögðu á ríkissjóður að gæta réttar síns í þessu máli ef brotið hefur verið á honum, að sjálfsögðu. Og mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra eigi að segja það hreint út en ekki segja að málið verði skoðað.

Við eigum kröfu á því að fjármálaráðherra segi fyrir hönd ríkissjóðs, fyrir hönd okkar hér, að að sjálfsögðu verði hagsmuna ríkissjóðs gætt í þessu máli. Við eigum kröfu á því að hann segi að hann muni beita sér fyrir því að málinu verði hraðað eins og kostur er og meira til. Það eru þau svör sem við viljum fá að heyra.

Ég legg áherslu á, frú forseti, að það er orðið tímabært að mál af þessum toga verði gerð upp — við höfum óuppgerð tryggingamál og önnur mál sem eru á sviði viðskipta, bæði í dómskerfinu sjálfu og hvað varðar bótakröfur. Það er óþolandi að slík mál safnist upp, frú forseti. Fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra, og aðrir þeir ráðherrar sem í hlut eiga, verða að ljúka þessu máli, gera það upp, gæta hagsmuna íslenska ríkisins. Það á að vera hafið yfir allan vafa að einbeittur vilji sé til að láta það mál ganga til enda og ljúka því.