132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:07]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur komið á daginn sem við í Samfylkingunni vöruðum við með þeim breytingum sem gerðar voru á fæðingarorlofslögunum sem tóku gildi 1. janúar 2005 því að fjöldi foreldra hefur fengið mjög skert fæðingarorlof frá því sem áður var. Breyttar viðmiðunarreglur um tekjur vegna greiðslu fæðingarorlofs hafa lækkað fæðingarorlofsgreiðslurnar verulega þannig að raungildi greiðslna sem áður var 80% af tekjum er nú komið niður í allt að 70%. Ef ekkert verður að gert er ljóst að foreldrar munu í miklu minna mæli nýta sér ákvæði fæðingarorlofslaganna og því stefnir í að verið sé að grafa undan lögunum með augljósum ágöllum þeirra nú. Við í Samfylkingunni viljum koma í veg fyrir það og flytjum tillögu um 500 millj. kr. viðbótarframlag í Fæðingarorlofssjóð sem mun duga til að tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur haldi raungildi sínu.