132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Atkvæðagreiðsluskýringar við fjárlög.

206. mál
[12:07]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Vegna þeirrar umræðu sem fram fór í lokin og reyndar líka fyrr á fundinum, undir liðnum Atkvæðaskýringar, vil ég koma því að að þetta er nýbreytni sem ég hafði ekki áttað mig á, að þingmenn gætu fengið orðið eftir að aðrir þingmenn hafa hafið atkvæðaskýringar sínar. Ef menn ætla að hafa þann háttinn á er hætt við því að fjárlagaumræðan geti farið að dragast úr hömlu, þ.e. afgreiðsla fjárlaga.

Ég held að það sé þrátt fyrir allt skárra að þingmenn sem vilja gefa skýringu á atkvæði sínu biðji um það strax í upphafi en ekki verði úr því langar umræður í hvert skipti sem einhver fer upp til að gefa skýringar á atkvæði sínu. Ég beini því til hæstv. forseta hvort ekki beri að halda í heiðri þær venjur sem hafa skapast hvað þetta varðar.