132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:33]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það eðlilegt að taka undir það með hv. þingmanni að störfin í fjárlaganefnd hafi að flestu leyti verið til mjög fyrirmyndar og það hefur ekkert hallað á í áhuga gagnvart því að fá upplýsingar afhentar. Hins vegar hefur okkur þótt í minni hlutanum að meiri hlutinn gæti nú kannski tekið örlítið fastar á því máli gagnvart þeim þingflokkum sem þeir starfa í þannig að þetta ætti að vera tryggt í gegnum ráðherrana. En við vonum að betri tíð sé fram undan.

Hér var minnst á eitt mál áðan og ég vildi spyrja hv. þingmann um hvort hann hefði nokkur tíðindi að segja frá því sem hv. þingmaður Guðjón A. Kristjánsson nefndi áðan um hugbúnaðarkerfi hjá Tryggingastofnun. Gert er ráð fyrir að 75 millj. kr. komi einmitt aukalega núna í það og þetta einstaka kerfi er þá líklega komið upp í tæplega 400 millj. kr. Spurningin er raunverulega hvort hv. þingmaður hafi nokkrar upplýsingar um hvort það minnisblað sem beðið hefur verið um væri nokkuð á leiðinni eða hefði einhvers staðar strandað. Ég mun svo í seinna andsvari bregðast við svari hans.